Hafði frumkvæði að viðskipunum

Frá HéraðsdómiReykjavíkur.
Frá HéraðsdómiReykjavíkur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Viðskiptin voru bara gerð á þessum fundi,“ sagði Magnús Ármann í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þar sem hann bar vitni í svokölluðu Ímon-máli. Málið snýst einkum um kaup Ímons ehf., félags í eigu Magnúsar, á rúmlega 4% hlut í Landsbanka Íslands fyrir rúmlega fimm milljarða króna með láni frá bankanum haustið 2008 rétt áður en bankinn féll. Telur sérstakur saksóknari að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til þess að láta líta út fyrir að eftirspurn væri eftir bréfum í Landsbanka Íslands.

Magnús sagði aðspurður af saksóknara erfitt að segja nákvæmlega til um það hvert upphafið að viðskiptunum hafi verið. Hann hafi verið í samskiptum við yfirmenn í Landsbanka Íslands einhverjum vikum eða mánuðum áður en til viðskiptanna kom og gefið þar til kynna mögulegan áhuga á að kaupa hlut í Landabanka Íslands. Ástæðan hafi verið sú að bréf í bankanum höfðu lækkað og hann hafi velt fyrir sér möguleika á stöðutöku í þeim efnum. Þannig hafi allra fyrstu samkiptin vegna málsins verið að hans mati.

Magnús sagðist síðan hafa fengið símtal í lok september 2008 frá Landsbanka Íslands og verið boðaður á áðurnefndan fund þar sem viðskiptin hafi verið ákveðin sem fyrr segir. Hann sagði aðspurður að forsenda viðskiptanna af hans hálfu hafi verið að fá 100% lánafyrirgreiðslu frá bankanum fyrir hlutnum enda hafi Ímon ekki verið með fjármagn á lausu til þess að greiða fyrir hlutinn en á hinn bóginn eignir til þess að leggja að veði. Landsbanki Íslands hafi á móti gert kröfu um að hluturinn í bankanum væri settur að veði auk bréfa Ímons í Byr.

Spurður hvort Magnús hafi lýst áhuga á að kaupa frekari hlut í Landsbanka Íslands sagðist hann hafa gert það. Gert hafi verið ráð fyrir að um sama fyrirkomulag yrði að ræða. Forsenda af hans hálfu hafi verið lánafyrirgreiðsla frá Landsbanka Íslands. Þau viðskipti hafi hins vegar ekki orðið að veruleika vegna þess að bankinn hafi fallið.

Spurður af verjendum í málinu hvort Magnús hafi verið í samskiptum við Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, vegna viðskiptanna sagði hann svo ekki hafa verið og sama svar fékkst varðandi samskipti vð Elínu Sigfúsdóttur, fyrrverandi forstöðumann fyrirtækjasviðs bankans, en þau eru ákærð í málinu af sérstökum saksóknara.

Frétt mbl.is: Tvímælalaust bankanum í hag

Frétt mbl.is: Hafði enga hagsmuni af málinu

Frétt mbl.is: Aðferðir saksóknara svakalegar

Frétt mbl.is: Segjast ákærð fyrir að fara að lögum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert