Kom hvergi nálægt viðskiptunum

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Kristinn

„Ég var ekki að þrýsta á stjórnendur bankans að gera eitt eða neitt,“ sagði Björgólfur Thor Björgólfsson þegar hann bar vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun við aðalmeðferð svokallaðs Ímon-máls. Málið snýst einkum um kaup Ímons ehf., félags í eigu Magnúsar Ármanns, á rúmlega 4% hlut í Landsbanka Íslands fyrir rúmlega fimm milljarða króna með láni frá bankanum haustið 2008 rétt áður en bankinn féll.

Björgólfur var þar að svara spurningu frá Sigurði G. Guðjónssyni, hæstaréttarlögmanni og verjanda Sigurjóns Þ. Árnasonar. Sigurjón er ákærður af sérstökum saksóknara í málinu fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun en embættið telur að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða til þess að láta líta út fyrir að eftirspurn væri eftir bréfum í Landsbanka Íslands. Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður fyrirtækjasviðs bankans, er einnig ákærð fyrir sömu sakargiftir og Sigurjón og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar, er sakaður um markaðsmisnotkun.

Björgólfur sagðist þannig aðspurður engin afskipti hafa haft af viðskiptunum við Ímon og ekki hvatt til þeirra. Sama ætti við hugmyndir um að Magnús keypti frekari hlut í Landsbanka Íslands, viðskipti sem aldrei varð þó af þar sem bankinn féll. Sama ætti við um lánveitingu til félagsins Azalea Rescources í eigu Ari Salmivouri, finnsks fjárfestis og viðskiptafélaga Björgólfs, upp á 3,8 milljarða króna. Hann þekkti Salmiviouri en hefði hvergi komið að þeim málum.

Hafði trú á að Landsbanki Íslands myndi lifa af

Spurður um uppgefnar ástæður þess að Salmiviouri hafði hug á að kaupa hlut í Landsbankanum, það er að hann yrði væntanlega tekinn yfir með aðstoð meðal annars frá finnska seðlabankanum, endurskipulagður og yrði sterkari á eftir, sagðist Björgólfur ekkert vita um það. En Salmiviouri sé Finni og búsettur í Brussel og hafi því huganlega haft einhverjar slíkar upplýsingar. Hins vegar hafi verið uppi sú trú rétt fyrir fall bankans að eitthvað mikið væri í undirbúningi.

Björgólfur lagði ennfremur áherslu á að hann hefði haft trú á að Landsbanki Íslands lifði af og síðan tekið þátt í því að reyna að bjarga bankanum, meðal annars með því að leggja fram frekari tryggingar af sinni hálfu. Hann tók fram að hann hefði átt í mörgum viðskiptum sem hafi verið „near death experience“ eins og það væri kallað en hafi síðan náð sér á strik aftur.

Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands, kom einnig fyrir héraðsdóm sem vitni og sagðist aðspurður ekki hafa komið að viðskiptunum við Ímon né Azalea Rescources. Útlán hafi verið á könnu bankastjóra bankans. Bankaráðið hafi fylgst vel með í samræmi við regluverkið en ekki skipt sér af útlánum. 

Frétt mbl.is: Hafði frumkvæði að viðskiptunum

Frétt mbl.is: Tvímælalaust bankanum í hag

Frétt mbl.is: Hafði enga hagsmuni af málinu

Frétt mbl.is: Aðferðir saksóknara svakalegar

Frétt mbl.is: Segjast ákærð fyrir að fara að lögum

Frétt mbl.is: Taldi hagnaðarvon í kaupunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert