Verður að vera aðstaða til að þrífa sælgætisbarina

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna fylgjast með því hversu vel sælgætisbarir í verslunum …
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna fylgjast með því hversu vel sælgætisbarir í verslunum eru þrifnir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Allir staðir sem selja einhver matvæli eru háðir eftirliti, það á líka við um verslanir og sjoppur sem bjóða upp á sælgætisbari. Sælgætið er óinnpakkað og telst í skilningi laganna til óvarinna matvæla. Því þarf að gæta fyllsta hreinlætis við meðhöndlun þess og verslanirnar eru skyldugar til að tryggja að matvælin óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að forsvarsmenn matvörukeðjunnar Bónuss íhugi nú að taka niður alla sælgætisbarina í verslunum sínum. Það tengist meðal annars reglum heilbrigðiseftirlitsins um aðbúnað og umgengni við sælgætisbarina, svo og minnkandi sölu.

Óskar Ísfeld Sigurðsson, heilbrigðisfulltrúi og deildarstjóri matvælaeftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir að ekki sé verið að herða reglur um sælgætisbari eða auka eftirlitið, þá hafi ekkert komið upp á í tengslum við þá sem skýri ofangreint mál. Um hefðbundið eftirlit sé að ræða. Væntanlega hafi Bónus fengið athugasemdir frá viðkomandi heilbrigðisfulltrúa um ófullnægjandi aðstöðu til þrifa á sælgætisbörunum.

Aðstaða og handlaug

„Við gerum ákveðnar kröfur til fyrirtækja með sjálfsafgreiðslubari, samkvæmt matvælalöggjöfinni. Verslanir þurfa að hafa aðstöðu á bakvið til að geta þrifið búnaðinn og þar viljum við líka að sé handlaug fyrir þann sem sér um þrifin. Verslanir eiga að hafa reglur um þrifin og geta sýnt fram á að sælgætisbarirnir séu hreinir, við metum það svo hvort þrifin eru nægileg. Við förum yfir sjálfsafgreiðslubarina eftir sérstökum gátlista og gerum athugasemdir ef þess gerist þörf, t.d við þrif eða hæð neðstu boxanna frá gólfi sem er stundum ekki nægjanleg,“ segir Óskar. „Við gerum kröfur og gefum fyrirtækjunum frest til að gera grein fyrir sínu máli og bæta úr. Ef þau telja að það sé vænlegra fyrir þau að taka sælgætisbarina niður er það þeirra ákvörðun.“

Spurður hvort það sé sóðaskapur í kringum sælgætisbarina segir Óskar það yfirleitt ekki vera þannig að það varði öryggi þessara matvæla. „Stundum, sérstaklega á tilboðsdögum, gengur mikið á við sælgætisbarina og þá getur umhverfi þeirra orðið ósnyrtilegt."

Óviðunandi í fjórðungi tilfella

Árið 2011 gerði heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis úttekt á þrifum og umgengni í kringum sælgætisbari í verslunum. Í úttektinni var farið á 36 sölustaði á eftirlitssvæðinu. Á 69,5% sölustaða voru þrif ágæt eða góð. Í 30,5% tilfella eða á 11 stöðum voru þrif slæm eða óhæf.

Jákvætt að loka nammibörum

Samkvæmt upplýsingum frá Kristni Skúlasyni, rekstrarstjóra Krónunnar, hefur heilbrigðiseftirlitið gefið Krónunni góða umsögn hvað varðar hreinlæti. Kristinn segir að ekki sé verið að íhuga að taka niður sælgætisbarina í Krónunni líkt og Bónus íhugar nú, salan úr þeim sé með ágætum og eðlilegt að viðskiptavinurinn hafi val um hvað hann vilji kaupa.

Gunnar Ingi Sigurðsson framkvæmdastjóri Hagkaupa segir sölu úr sælgætisbörum alltaf vera á svipuðu róli þó hún hafi aðeins gefið eftir í fyrra. Hann segir verslanirnar eiga í góðu samstarfi við heilbrigðiseftirlitið, farið sé eftir reglum og aðstaða sé til þrifa í öllum verslunum.

Í upplýsingum frá embætti landlæknis kemur fram að heildarframboð sælgætis á ári hverju hér á landi sé um 6.000 tonn. Embættið hefur hvatt stjórnendur verslana þar sem sælgæti er í lausasölu til að endurskoða afsláttarkjör á sælgæti og íhuga einnig afslátt af hollari vörum.

„Það er mjög jákvætt að verið sé að loka nammibörum en það sem hefur mest áhrif á neyslu er aðgengi og verð,“ segir Hólmfríður Þorgeirsdóttir, næringarfræðingur hjá embætti landlæknis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert