Nafnið Damon samþykkt

Damon Albarn, söngvari Blur fær nú nafna á Íslandi.
Damon Albarn, söngvari Blur fær nú nafna á Íslandi. AFP

Mannanafnanefnd hefur samþykkt karlmannsnafnið Damon og fært það á mannanafnaskrá. Líklega er þekktasti maðurinn sem ber það nafn Damon Albarn, söngvari Blur, en hann hefur oft heimsótt Ísland. Hann mun því væntanlega eignast nokkra nafna hér á landi fljótlega.

Nefndin samþykkti einnig á fundi sínum í apríl eiginnafnið Cesar. Í úrskurði nefndarinnar segir að þó að nafnið Cesar uppfylli ekki það skilyrði að vera ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls sé hefð komin fyrir rithættinum þar sem þrír Íslendingar á lífi beri nafnið Cesar. Enn fremur bar einn Íslendingur nafnið fæddur árið 1925. Því samþykkti nefndin nafnið. 

Nefndin samþykkti ennfremur nafnið Mathilda. Í rökstuðningi nefndarinnar segir m.a.: „Eiginnafnið Mathilda (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Mathildu. Afbökun á rótgrónu nafni er eitt af því sem getur brotið í bág við íslenskt málkerfi. Á mannanafnaskrá er nafnið Matthilda en Mathilda getur ekki talist vera afbökun þess þar sem fyrrnefnda nafnið (Matthilda) er einnig nýlegt í málinu og var ekki tekið upp í mannanafnaskrá fyrr en árið 2007. Framburður nafnstofnsins Mat- er einnig í samræmi við rithátt hans, þ.e. með löngu a-hljóði og samræmist íslenskum hljóðskipunarreglum. Nafnið telst einnig að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.“

Nefndin samþykkti einnig eiginnöfnin Nathan, Friðsteinn og Sirrí en hafnaði hins vegar kvenmannsnafninu Christa. Fyrir liggur að sama fólk hefur áður sótt um þetta nafn. Í úrskurði nefndarinnar segir að nafnið sé ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur. Þá telur nefndin að ekki sé komin hefð fyrir þessum rithætti nafnsins íslensku, þrátt fyrir að fjórar konur séu skráðar með því nafni í Þjóðskrá. 

Þá hafnaði nefndin beiðni um millinöfnin Vilberg og Dalberg. 

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert