Clinton réði ekki við Njálu

Bill Clinton ruglaðist á öllum nöfnunum í Njálu.
Bill Clinton ruglaðist á öllum nöfnunum í Njálu. Njálu

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, gerði í tvígang tilraun til þess að lesa Njálu. Honum reyndist lesturinn erfiður.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, gat um áhuga Clintons á Íslendingasögunum í ræðu í New York í tilefni af því að hann var sæmdur gullmerki American-Scandinavian Foundation.

Árið 2000 var opnuð sýningin Vikings in the West í Washington og við það tilefni fór Clinton með gest sinn Ólaf Ragnar afsíðis inn í bókasafn sitt og sýndi hvar Íslendingasögurnar í enskri útgáfu voru þar á áberandi stað.

„Þá viðurkenndi hann hins vegar fremur feimnislega ... að hann hefði tvisvar reynt að ljúka Njálu en að öll þess nöfn hefðu borið hann ofurliði: synir og dætur og svo synir þeirra og dætur og svo aftur synir þeirra og dætur: kynslóðir aftur í tímann,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Það var heillandi að sjá að Íslendingasögurnar höfðu lagt forseta að velli sem vakti um heim allan aðdáun fyrir þann einstaka eiginleika að muna nöfn allra sem höfðu nokkru sinni orðið á vegi hans,“ sagði Ólafur Ragnar um Clinton.

Einn mesti landkönnuður sögunnar

Þá má geta þess að Ólafur Ragnar fór fögrum orðum um Guðríði Þorbjarnardóttur.

„Færa má rök fyrir því að hún sé mesti landkönnuður allra tíma á meðal kvenna; fyrsta manneskjan í sögunni til að heimsækja bæði Ameríku og Róm - og gerði það 500 árum áður en Kristófer Kólumbus byrjaði að láta til sín taka,“ sagði Ólafur Ragnar meðal annars um Guðríði.

Af öðrum umræðuefnum forsetans má nefna að hann líkti opnun siglingaleiða á norðurslóðum við opnun Súez-skurðarins fyrir rúmri öld, slík byltingarkennd áhrif gætu siglingarnar haft í heimsflutningum.

Er hér lauslega þýtt úr ensku en á því máli var þakkarræðan flutt. Hana má lesa hér.

mbl.is