Þjóðmenningarhúsið verður Safnahúsið

Þjóðmenningarhúsið heitir nú Safnahúsið.
Þjóðmenningarhúsið heitir nú Safnahúsið. mbl.is/Brynjar Gauti

Safnahúsið við Hverfisgötu, áður Þjóðmenningarhúsið, hefur nú fengið sitt gamla nafn aftur. Breytingin er gerð í samræmi við ákvörðun forsætisráðherra um að heimila Þjóðminjasafninu að taka aftur upp hið fyrra heiti, það er Safnahúsið við Hverfisgötu/Arnarhól.

Þetta kemur fram á vef forsætisráðuneytisins.

Þar segir, að um þessar mundir sé unnið að grunnsýningu um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf sem fyrirhugað sé að opnuð verði í Safnahúsinu haustið 2014. Það sé í anda samstarfs nokkurra stofnana sem að sýningunni standi að nafnbreytingin eigi sér stað nú. Stofnanirnar eru Þjóðminjasafn Íslands, sem sér um rekstur hússins, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Sýningarstjóri nýrrar grunnsýningar Safnahússins er Markús Þór Andrésson en valinn hluti safnkosts áðurnefndra menningarstofnana verður til sýnis, frá elstu varðveittu heimildum til dagsins í dag.

„Samstarf þessara stofnana býður upp á einstakt tækifæri til að skoða arfleifðina í nýju samhengi og varpa ljósi á ósagða sögu með nýstárlegum hætti. Markmið aðstandenda sýningarinnar er að ná sérstaklega til skólafólks og fjölskyldna en um leið til ferðamanna,“ segir á vef ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina