Vetrarþjónusta alla daga

Ljósmynd/Vegagerðin

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri tilkynnti á fundi samgönguráðs með vestfirskum sveitarstjórnarmönnum á Ísafirði í vikunni, að í haust verði tekin upp sjö daga vetrarþjónusta á vestfirskum vegum, þar sem mörg undanfarin ár hefur aðeins verið sex daga þjónusta.

Þannig hefur ekki verið mokað á laugardögum á helstu leiðum eins og um Ísafjarðardjúp, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda og um sunnanverða Vestfirði, segir í frétt á Reykhólavefnum.

„Ég fagna því að Vegagerðin skuli vera búin að taka þessa ákvörðun, þetta hefur verið ófremdarástand að geta ekki ferðast alla daga vikunnar. Þetta hefur verið í umræðunni í allmörg ár, en núna í vetur var þetta sérlega slæmt. Frá næsta hausti munu flestir Vestfirðingar sitja við sama borð og þorri landsmanna,“ segir Birna Lárusdóttir á Ísafirði, formaður samgönguráðs, í samtali við Reykhólavefinn.

mbl.is