Vítahringur refsiverðrar háttsemi

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari situr á milli aðstoðarkvenna sinna.
Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari situr á milli aðstoðarkvenna sinna. mbl.is/Þórður

Sérstakur saksóknari krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmi Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, í fimm ára fangelsi fyrir aðkomu sína að svonefndu Imon-máli. Þá er þess krafist að Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fv. framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, verði dæmd í fjögurra ára fangelsi og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, í fjögurra ára fangelsi.

Imon-málið sem svo er kallað tengist sölu Landsbankans á eigin bréfum til tveggja eignarhaldsfélaga í lok september og byrjun október árið 2008. Félögin tvö voru Imon ehf. og Azalea Resources Ltd. Til stóð að Landsbankinn fjármagnaði kaupin og hefðu þrettán milljarðar verið lánaðir til félaganna ef allt hefði gengið eftir. Hins vegar varð „aðeins“ af einni lánveitingu af þremur, upp á fimm milljarða króna til Imon. Engu að síður var kauphöllinni tilkynnt um öll viðskiptin og telur saksóknari að það hafi verið gert til að blekkja markaðinn.

Málflutningur í Imon-málinu hófst í dag en honum lýkur á morgun. Í dag flutti ræðu sína Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari hjá sérstökum saksóknara. Hún sagði málið sprottið upp úr afar umfangsmikilli rannsókn á markaðsmisnotkun innan Landsbankans, rannsókn sem ekki sér enn fyrir endann á. Nefndi hún í því sambandi sölu hlutabréfa í Landsbankanum til Pro-Invest 30. september 2008.

Arnþrúður sagði mikilvægt að hafa í huga hvernig staðan var í íslenska fjármálakerfinu í lok september og byrjun október 2008. Alþjóðlega bankakreppan var að skella á, Glitnir banki hafði þegar leitað á náðir ríkisstjórnarinnar, innistæðueigendur voru farnir að taka reiðufé sitt út úr bönkunum. Íslenska bankakerfið hafi verið á heljarþröm eins og sást á því að neyðarlögin voru sett nokkrum dögum síðar og bankarnir teknir yfir.

Hún sagði að brot ákærðu í málinu hefðu verið framin þegar freistingin var sem mest, þegar fyrirtæki eru að fara í þrot.

Knúin til brotanna

Saksóknari sagði að á þessu tímabili hafi Landsbankinn keypt gríðarlegt magn af eigin hlutabréfum til að halda uppi verði þeirra. Framboð á hlutabréfum í Landsbankanum hafi verið mun meira en eftirspurn og það hefði eðlilega átt að leiða til lækkunar þeirra. Á löngu tímabili hafi Landsbankinn keypt eigin bréf til þess að það gerðist ekki.

Þessi miklu kaup urðu til þess að eigin bréf söfnuðust upp hjá bankanum en vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja á eigin hlutabréfum, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall Landsbankans þurfti bankinn að losa sig við bréfin, þá til þess að bankinn gæti haldið áfram að kaupa eigin bréf og halda uppi verðinu. Þetta hafi skapað „vítahring refsiverðrar háttsemi“.

Saksóknari sagði að eigin kaup bankans hafi því knúið ákærðu í málinu til þeirra brota sem fjallað er um í ákærunni. Þau hafi í raun verið nauðsynleg forsenda til þess að halda áfram markaðsmisnotkuninni.

Afleiðingarnar þekkja allir

Arnþrúður sagði að gripið hefði verið til örþrifaráða til að losa um bréf bankans. Það hafi verið afar kostnaðarsöm ráð og sum þeirra refsiverð. Þeirra á meðal séu ákæruatriðin í málinu, önnur séu enn til rannsóknar. „Sú staða sem ákærðu höfðu komið sér í réttlætir með engu athafnir þeirra. Alvarlegar og langvarandi afleiðingar fyrir kröfuhafa bankans og íslenskt samfélag þekkja síðan allir.“

Frá 29. september til 3. október 2008 hafi verið mun meira framboð en eftirspurn eftir bréfum í bankanum og enginn fjárfestir tilbúinn að taka fjárhagslega áhættu og kaupa bréf. Enda hafi komið á daginn að eigendur Imon og Azalea lögðu ekki krónu út heldur létu eignalaus félög sín taka lán hjá bankanum fyrir kaupunum. Sömu eigendur hefðu hagnast ef bréfin hefðu hækkað í verði en gátu ekki tapað á viðskiptunum. Landsbankinn hlaut hins vegar alltaf að tapa á þeim.

Hún sagði þá einnig að Sigurjón og Sigríður Elín hefðu þverbrotið lánareglur bankans, meðal annars með því að taka ónógar tryggingar. Fimm milljarða króna lánið til Imon hafi verið forsenda stærstu viðskipta ársins með hlutabréf í Landsbankanum og því hafi verið útilokað að slaka mætti á útlánareglum bankans.

Hún sagði erfitt að segja til um hvað hafi gengið mönnum til að lána með þessum hætti þegar allt mælti því í mót.

Azalea dregið upp úr skúffunni

Eins og áður segir þá var um þrenn viðskipti að ræða, í fyrsta lagi sala hlutabréfa til Imon 30. september, í öðru lagi sala hlutabréfa til Imon 3. október og þriðja lagi sala hlutabréfa til Azalea 3. október. Gera átti upp viðskiptin 3. október hinn 8. október en Landsbankinn var tekinn yfir 7. október.

Saksóknari sagði að þegar bréfin voru færð yfir á félögin Imon og Azalea 3. október hafi ekki verið búið að ganga frá fjármögnun. Engin samþykkt hafi legið fyrir um lánveitingu Landsbankans til félaganna vegna kaupanna, hvorki á fundi lánanefndar eða utan funda.

Eins og fram hefur komið við aðalmeðferð málsins var eigandi Azalega finnskur viðskiptafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar. Hann mætti í Landsbankann í Lúxemborg 3. október til að ganga frá viðskiptunum. Saksóknari sagði manninn hvorki hafa verið í viðskiptum við Landsbankann í Lúxemborg eða á Íslandi. Hann hafi engu að síður getað gengið inn í Landsbankann í Lúxemborg og eftir nokkrar klukkustundir var hann skráður fyrir fyrirtækinu Azalea – „sem dregið var upp úr skúffunni í Landsbankanum í Lúxemborg“ – og búinn að skrifa upp á fjögurra milljarða króna lán til kaupa á hlutabréfum í Landsbankanum með veði í bréfunum sjálfum.

Saksóknari sagði að ekkert eigið fé hefði verið í Azalea og finnski fjárfestirinn hafi ekki ætlað að leggja neitt fé að veði. Gríðarleg áhersla hafi verið lögð á að keyra viðskiptin í gegn og var tilkynning send kauphöllinni um þau þrátt fyrir að engin samþykkt lægi fyrir um kaupin. Lánasamningurinn hafi verið óundirritaður af hálfu Landsbankans.

Gengi Landsbankans hækkaði um rúm fjögur prósent vegna viðskiptanna 3. október. „Myndin sem fjárfestar fengu af eftirspurn eftir bréfum í bankanum var engan veginn í takt við raunveruleikann,“ sagði saksóknari. Bréfunum hafi hreinlega verið mokað út úr bankanum án fjármögnunar. Og það hafi aldrei verið greitt nokkuð fyrir hlutabréfin.

Saksóknari sagði að í báðum þessum málum hafi fjárfestar komið inn í bankann sem ekki voru tilbúnir að leggja fram neinar tryggingar, engu að síður fengu eignalaus félög þeirra hlutabréf fyrir milljarða króna. „Ef eitthvað er, teljast brotin enn alvarlegri [en fyrri viðskiptin við Imon] því ekki var búið að ganga frá fjármögnun.“

Að lokum sagði saksóknari að brotin ættu sér fá fordæmi varðandi umfang og alvarleika. Brotin varði gríðarlega háa fjárhæð og markaðssvikin hafi gefið alranga mynd af eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum. Því eigi Sigurjón að vera dæmdur í ekki minna en fimm ára fangelsi og þau Sigríður Elín og Steinþór í ekki minna en fjögurra ára fangelsi.

Ræðu saksóknara lauk á fimmta tímanum í dag og var málinu þá frestað þar til á morgun þegar verjendur ákærðu fá að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert