Andlát: Hermann Þorsteinsson

Hermann Þorsteinsson.
Hermann Þorsteinsson.

Hermann Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, lést í gærmorgun, 92 ára að aldri. Hermann fæddist 7. október 1921 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Guðrún Hermannsdóttir húsfreyja og Þorsteinn Ágústsson, húsgagnasmiður í Reykjavík. Hermann var fjórði af sex systkinum og lifði hann þau öll.

Hermann starfaði hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga í nákvæmlega hálfa öld, eða frá fjórtán ára afmælisdegi sínum árið 1935 til sama dags árið 1985. Á þeim tíma sinnti hann ýmsum störfum fyrir Sambandið, dvaldi um árabil á þess vegum í Kaupmannahöfn. Eftir að þaðan var komið veitti hann forstöðu Lífeyrissjóði SÍS í 25 ár.

Hermann var virkur í félagsstörfum og lagði mörgum góðum málefnum lið. Hermann starfaði bæði fyrir KFUM og var einn af stofnendum Gídeon-félagsins. Hermann var jafnframt ólaunaður framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags frá 1965 til ársins 1990 og sá meðal annars um útgáfu Biblíunnar árið 1981. Hermann vann þar að endurreisn og eflingu þessa elsta félags á Íslandi, ásamt þáverandi biskupi Íslands, hr. Sigurbirni Einarssyni, og Ólafi Ólafssyni kristniboða, en starf þess hafði þá legið niðri um árabil.

Eitt helsta hugðarefni Hermanns var bygging Hallgrímskirkju, en hann tók sæti í sóknarnefnd kirkjunnar árið 1960 og tók við forstöðu framkvæmdanna árið 1965. Hermann fór á eftirlaun 1985, ári áður en kirkjan var vígð, og eyddi þá öllum starfskröftum sínum næsta árið sem ólaunaður byggingarstjóri þar til kirkjan var loks vígð hinn 26. október 1986, þremur vikum eftir 65 ára afmæli Hermanns og 41 ári eftir að byrjað var að reisa hana. Er óhætt að segja að þakka megi Hermanni öðrum fremur að lokið var við kirkjuna, þó að margir hafi lagt þar hönd á plóg. Frú Vigdís Finnbogadóttir sæmdi Hermann fálkaorðunni með þessum orðum: „Fyrir allt sem þú hefur gert fyrir trúna í landinu.“

Hermann var tvígiftur. Fyrri kona hans hét Ingibjörg Magnúsdóttir, en þau giftust 10. maí 1947. Ingibjörg lést 19. september 1993. Eftirlifandi eiginkona Hermanns er Helga Rakel Stefnisdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert