Páll sýknaður í meiðyrðamáli

Páll Vilhjálmsson
Páll Vilhjálmsson mbl.is/Steinar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað bloggarann Pál Vilhjálmsson sem var sakaður um ærumeiðandi ummæli í garð fréttamanns Ríkisútvarpsins.

Anna Kristín Pálsdóttir, fréttamaður RÚV, höfðaði mál á hendur Páli og krafðist þess að hann yrði dæmdur til refsingar fyrir meiðyrði og að eftirfarandi ummæli sem hann skrifaði á bloggsíðu sína yrðu dæmd ómerk:

  • „Fréttamaður RÚV í Brussel falsar ummæli forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins“
  • „Fréttamaður RÚV er viljandi og af yfirlögðu ráði að fela þá staðreynd“
  • „Fréttafölsunin er í þágu þeirrar blekkingar.“

Málið snýst um frétt Önnu Kristínar sem fjallaði um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu en fréttin var flutt í hádegisfréttatíma RÚV 16. júlí 2013.  Páll bloggaði um fréttina sama dag á bloggsíðu sinni.

Anna Kristín hélt því fram fyrir dómi að þær aðdróttanir, sem settar hefðu verið fram af hálfu Páls í greindum skrifum og væri beint að Önnu, væru rætnar og illskeyttar. Þær hefðu vegið að mannorði hennar og væru til þess fallnar að meiða æru hennar. Hún væri borin þeim sökum að ljúga vísvitandi að þjóðinni í blekkingarskyni, sögð falsa ummæli forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins og falsa fréttir, sbr. þau orð og orðasambönd sem krafist var að ómerkt yrði með dómi. Þó að Anna væri ekki nafngreind væri af samhenginu ljóst að það væri hún sem ætti í hlut og aðdróttanirnar beindust að henni og starfsheiðri hennar.

„Stefnandi telur að hvað sem líði meiningarmuni um það hvort þýða beri enska orðasambandið „accession process“ sem aðildarviðræður eða aðildarferli, þá geti slíkur meiningarmunur ekki réttlætt að ráðist sé gegn æru stefnanda með greindum hætti. Með ummælum sínum hafi stefndi farið út fyrir það sem talist geti málefnaleg gagnrýni og út fyrir þau mörk, sem stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi séu sett,“ segir í dómi héraðsdóms um málsástæður Önnu.

Páll hélt því fram að, hvað varðar ummælin: ,,Fréttamaður RÚV í Brussel falsar ummæli forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins‟, að þau vísuðu til þess að samkvæmt viðurkenndum orðabókum væri sögnin að ,,að falsa‟ skilgreind sem ,,svíkja, villa, afbaka, afskræma‟ annars vegar og hins vegar ,,draga á tálar og búa til svikinn hlut‟. Í daglegu tali þekkist orðið ,,falsspámaður‟ í merkingunni að einhver sé ómarktækur. Páll mótmælti því að hann hefði borið Önnu á brýn refsiverða háttsemi. Hið rétta væri að hann hefði gagnrýnt RÚV fyrir að falsa, þ.e. búa til svikna vöru og afbaka orð forseta leiðtogaráðs ESB. Engin refsing væri fyrir því að afbaka orð í opinberri umræðu. Með því að leiðrétta þýðinguna á ,,accession process‟ í sjónvarpsfréttum RÚV samdægurs væri komin viðurkenning á því að orð forseta leiðtogaráðs ESB hefðu verið afbökuð, þ.e. fölsuð, í hádegisfréttum RÚV fyrr um daginn.

Hvað varði ummælin: ,,Fréttamaður RÚV er viljandi og af yfirlögðu ráði að fela þá staðreynd,‟ þá vísar Páll til þess að allir sem minnstu þekkingu hafi á blaðamennsku og starfsemi fréttadeilda viti að á hverjum degi sé vinsað út fjölmörgum fréttum og staðreyndum og aðeins birt brot af þeim í fréttatímum. Ummælin séu að því leyti aðeins lýsing á hversdagslegri starfsemi blaða- og fréttamanna.

Hvað varði ummælin: ,,Fréttafölsunin er í þágu þeirrar blekkingar,‟ þá vísi Páll til þess að hér sé um að ræða ályktun af fyrri ummælum annars vegar og hins vegar af frétt RÚV í heild sinni og hvaða stjórnmálalegu og hugmyndafræðilegu sjónarmiðum hún þjóni. Að vekja athygli á rangri þýðingu og afbökun orða feli ekki í sér ásökun um refsiverða háttsemi.

Dómari bendir á að samkvæmt stjórnarskránni séu allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Þá segir að strangar kröfur verði að gera til takmarkana á þjóðfélagslegri umræðu.

Dómarinn bendir á að málefnið sem hafi verið til umfjöllunar í grein Páls falli undir það að vera mikilvægt þjóðfélagslegt málefni. Enn fremur sé til þess að líta að Anna Kristín flutti frétt þá sem varð tilefni skrifa Páls sem fréttamaður Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið sé að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins og sé rekstur þess að stærstum hluta fjármagnaður af almannafé. Gegnir stofnunin mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi.

Þá kemur fram, að af gögnum málsins megi ráða að áhöld séu um þýðingu orðanna „accession process“ en í kvöldfréttum sjónvarps hafi þessi sömu orð Hermans van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, verið þýdd sem aðildarferli en ekki aðildarviðræður, líkt og í hádegisfréttum útvarps. Páll telur hins vegar að rétt þýðing orðanna sé aðlögunarferli og færir fyrir því rök í grein sinni sem greinilega mótast af hans pólitísku sýn um eðli umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Umfjöllun Páls og ályktanir hans hafi því ekki verið að tilefnislausu þótt fulldjúpt væri tekið í árinni að fullyrða að þýðingin aðildarviðræður væri fölsun. Í grein Páls hafi verið að finna slóð á frétt Önnu Kristínar og gátu lesendur greinarinnar því myndað sér sjálfstæða skoðun á því hvort gildisdómar Páls væru á rökum reistir, en gagnvart þeim, sem ekki voru sama sinnis, dæmdu orð hans sig sjálf. Þrátt fyrir að ummæli Páls um fölsun og blekkingu hafi verið hvöss verði þau af þessum sökum, og að gættum rétti hans samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, ekki ómerkt.

Var Páll því sýknaður af kröfum stefnanda og féll málskostnaður niður. 

Dómur héraðsdóms

Kröfum bloggara um frávísun hafnað

Sagði Önnu gera sig stærri en RÚV

Fréttamaður stefnir bloggara

Segir fréttamann RÚV hóta sér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert