„Eins og ekkert hafi breyst“

„Á síðasta deginum er eins og ekkert hafi breyst. Þetta er eins og við fyrstu yfirheyrsluna 2009 þegar menn voru með kolvitlausar lánareglur og ég var að reyna skýra þetta fyrir þeim,“ sagði Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, í ávarpi sínu við lok aðalmeðferðar í Imon-málinu svonefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Sigurjón sagði að ótrúlegt hefði verið að hlusta á málflutning ákæruvaldsins á mánudag, þrátt fyrir að alls kyns gagna hefði verið aflað, skýrslur teknar af fjölmörgum þá væri ákæruvaldið í sömu sporum og fyrir fimm árum. „Hvað sem maður segir og reynir að útskýra þá er maður alltaf sekur. Og ef það eru einhver vafaatriði þá skulu þau alltaf falla manni í óhag. Það er aldrei farið eftir grundvallarprinsippinu um að menn skuli saklausir þar til sekt er sönnuð og að vafaatriði skuli falla sakborningi í hag.“

Hann sagði sorglegt að sama hvað lagt hefði verið fram við rannsókn málsins til að reyna skýra það fyrir rannsakendum þá hefði það engu skipt. „Það er ekki hlustað. [...] Og ekki er gætt hófsemi í einu né neinu. Gera menn sér grein fyrir því að búið er að fara yfir 520 þúsund tölvupósta, sjö þúsund símtöl. Það er búið að fara í gegnum allt. Og ekkert finnst því það er ekki neitt. Við vorum að vinna með hagsmuni bankans í fyrirrúmi og ekkert annað. Það stenst ekki að maður hafi alltaf verið að reyna gera eitthvað óheiðarlegt. Það er ekki þannig.“

Hann sagði ákæruvaldið ekki hafa reynt að leggja fram nein gögn máli sínu til stuðnings heldur hefðu eingöngu verið búnar til sögur og dylgjað. „Þeir sem eru að taka þessar ákvarðanir eru ég og Elín [Sigfúsdóttir] alveg eins og við tókum sambærilegar ákvarðanir í hundruðum eða þúsundum annarra mála.“

Í máli Sigurðar G. Guðjónssonar, verjanda Sigurjóns, kom fram að á árunum 2007 og 2008 voru 1.964 lánamál samþykkt á 67 fundum lánanefndar Landsbankans. Af þeim voru 1.301 lánamál samþykkt á milli funda lánanefndarinnar eða 66% og flest þeirra af Sigurjóni og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur, eða 58%. Lánið til Imon ehf. sem samþykkt var 30. september 2008, ákært er fyrir í málinu og talið fela í sér umboðssvik af hálfu Sigurjóns og Sigríðar Elínar var einmitt samþykkt á þennan sama hátt.

Lesa má ítarlega frásögn af málflutningsræðum verjenda þeirra Sigurjóns, Sigríðar Elínar og Steinþórs Gunnarssonar, ákærðu í Imon-málinu, á mbl.is. Dóms í málinu er svo að vænta á næstu vikum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert