Skylt að upplýsa um símtöl

Frá aðgerðum lögreglu í byrjun desember.
Frá aðgerðum lögreglu í byrjun desember. mbl.is/Rósa Braga

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem fallist var á kröfu ríkissaksóknara um að fjarskiptafyrirtæki væri skylt að afhenda lista yfir öll símtöl úr og í tilgreint símanúmer á sex klukkustunda tímabili sem tengist skotárás sem átti sér stað í Hraunbæ 2. desember.

Fjarskiptafyrirtækinu er gert að upplýsa hver af viðskiptavinum þess hefði verið notandi þess á þeim tíma. Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur féll 29. apríl sl. 

Umsát­urs­ástand átti sér stað í Hraun­bæ í Árbæn­um að morgni 2. des­em­ber sl. Karl­maður skaut þá ít­rekað af hagla­byssu í íbúð sinni og síðan á lög­regl­u þegar hún mætti á vettvang. Maðurinn féll fyr­ir skot­um lög­reglu þegar þess var freistað að fara inn í íbúðina og yf­ir­buga hann.

Ríkissaksóknari rannsakar nú hvort framin hafi verið refsiverð brot í tengslum við störf lögreglu þennan dag, en rannsóknin beinist að því að leiða í ljós hvort aðför lögreglu að manninum hafi verið réttlætanleg, hvort fullt tilefni hafi verið til að ráðast til inngöngu að undangenginni beitingu gasvopna gegn honum og hvort farið hafi verið að lögum við framkvæmd þessa. 

Ríkissaksóknari segir að það sé nauðsynlegt í þágu rannsóknarinnar að leiða í ljós hvort reynt hafi verið til þrautar að fá manninn til að hlýða fyrirmælum lögreglu og leggja niður vopn áður en ráðist hafi verið til inngöngu í íbúðina. Ríkissaksóknari hafi ekki upplýsingar frá öðrum en lögreglu um að reynt hafi verið að hringja í tvo síma sem maðurinn hafi haft til umráða. Svo ríkissaksóknari geti sannreynt fullyrðingar lögreglu sé embættinu nauðsyn að fá yfirlit yfir símtöl til og frá umræddum símanúmerum á þeim tíma sem afskipti lögreglu hafi staðið yfir. Því var krafa þessi sett fram.

mbl.is