Skýringar ríkisendurskoðanda ekki fullnægjandi

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Lárus Ögmundsson yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar á fundi …
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi og Lárus Ögmundsson yfirlögfræðingur Ríkisendurskoðunar á fundi fjárlaganefndar. Morgunblaðið/Ómar

Skýringar ríkisendurskoðanda á þeim mikla drætti sem varð á því að skila til Alþingis umbeðinni skýrslu um undirbúning og innleiðingu  fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins (Orra) eru ekki fullnægjandi að mati stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þó að verkefnið sé viðamikið og sérhæft og starfsmannabreytingar hafi haft nokkur áhrif á vinnslu þess, auk annarra verkefna stofnunarinnar. Þetta kemur fram í áliti nefndarinnar sem hún skilaði í gær og birt var á vef Alþingis.

Heild­ar­kostnaður við Orra á ár­un­um 2001-2011 nam 5,9 millj­örðum, en þar af nam stofn­kostnaður 1,5 millj­örðum. Sam­kvæmt kaup­samn­ingi átti kostnaður­inn að vera einn millj­arður. Kostnaður­inn fór því 41% fram úr áætl­un miðað við verðlag árs­ins 2001. Eng­in áætl­un var gerð á sín­um tíma um rekstr­ar­kostnað Orra.

Nefndin telur að tafirnar séu fremur af stjórnunarlegu tagi hjá fyrrverandi og núverandi ríkisendurskoðanda. Nefndin telur sérstaklega aðfinnsluvert að hvorugur hafi upplýst forsætisnefnd þingsins um tafir á umbeðinni skýrslu og ástæður þeirra. Nefndin tekur þó fram að enn ríki fullt traust til stofnunarinnar enda er hér um einstakt tilvik að ræða og bendir á að stofnunin setti sér verklagsreglur um meðferð og afgreiðslu skýrslubeiðna frá forsætisnefnd Alþingis í júní 2013.

Gerir athugasemd vegna fjölskyldutengsla

Samkvæmt þeim skal afgreiðslan að jafnaði ekki taka lengri tíma en sex mánuði frá því að beiðni berst og þar til skýrslu er skilað til Alþingis. 

„Nefndin bendir einnig á að þegar litið er til fjölskyldutengsla núverandi ríkisendurskoðanda, þ.e. að annar bróðir hans var skrifstofustjóri í fjármálaráðuneyti sem sat í stýrinefnd um kaup á kerfinu og hinn var framkvæmdastjóri hugbúnaðarlausna hjá Skýrr hf. sem seldi ríkinu kerfið og var síðar ritari þeirrar stýrinefndar sem sá um innleiðingu á kerfinu hjá Fjársýslunni, sé aðkoma hans að málinu til þess fallin að rýra trúverðugleika hans sem trúnaðarmanns þingsins. Nefndin telur því heppilegra að hann hefði vikið sæti við gerð þessara skýrslna,“ segir í niðurstöðum nefndarinnar.

Nefndin tekur fram að undirbúningur og innleiðing á fjárhags- og mannauðskerfi fyrir stofnanir ríkisins er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ríkið, stofnanir þess og almenning þegar litið er til umfangs og kostnaðar. Mikilvægt er því að vel takist til með verkefnið og eftirlit með því. Nefndin telur að vinna við skýrsluna um undirbúning og innleiðingu hefði átt að njóta ákveðins forgangs vegna þeirra hagsmuna sem fyrir hendi eru og þess lærdóms sem hefði mátt draga af verkefninu. 

Mikill kostnaður gagnrýniverður

Fyrir liggur að kostnaður við verkefnið var mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og upplýst var fyrir Alþingi og er það mjög gagnrýnisvert. 

„Nefndin telur nauðsynlegt að við undirbúning á verkefni sem innleiðing og uppfærsla á svo víðtæku kerfi sem fjárhags- og mannauðskerfi fyrir allar stofnanir ríkisins er sé nauðsynlegt að undirbúa verkefnið faglega í samræmi við aðferðir verkefnastjórnunar, svo sem með stofnun stýrihóps, skipun verkefnastjóra og vinnuhópa fyrir afmarkaða þætti verkefnisins. Þá er nauðsynlegt að skilgreina vel markmið, vinna að ítarlegri þarfagreiningu, gerð formlegrar áhættugreiningar, vönduðu útboði, markvissu eftirliti og eftirfylgni með framkvæmd, auk reglulegra úttekta eftirlitsaðila, þ.m.t. athugun á áreiðanleika kerfisins og vottun á því. Nefndin tekur undir með Ríkisendurskoðun um að í lok svo stórra verkefna sem innleiðing og uppfærsla eru skuli metið vandlega hvort öll markmið hafi náðst, ástæður frávika greindar og brugðist við þeim með markvissum hætti,“ segir í áliti nefndarinnar.

Nefndin gerir ekki athugasemdir við niðurstöður og ábendingar Ríkisendurskoðunar í skýrslunum sem eru í meginatriðum í samræmi við niðurstöðu sænsks ráðgjafa sem gerði úttekt á kerfinu að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytis. Meginniðurstöður þessara aðila eru að kerfið mæti kröfum stjórnvalda í öllum meginatriðum og virkni þess uppfylli kröfur ríkisins þó að upp hafi komið ýmsir agnúar og eins og ráðgjafinn benti á að bæta megi stefnumiðaða stjórnun, ábyrgð og eignarhald á kerfinu. 

Nefndin telur nauðsynlegt að við undirbúning á útboði á rekstri kerfisins, sem nú er unnið að, og uppfærslu á kerfinu, sem fram undan er, þurfi að nýta þær ábendingar sem komið hafa fram og m.a. endurskoða eignarhald á kerfinu, sem ríkið hefur einungis notendaaðgang að, þannig að kerfið og þær breytingar sem gerðar eru á því verði eign ríkisins sem geti þar með nýtt það fyrir allar stofnanir án þess að þurfa að kaupa aðgang fyrir hverja og eina. 

Nefndin leggur áherslu á að í þeirri vinnu sem fram undan er verði unnið faglega með hagsmuni ríkisins og almennings að leiðarljósi. Nefndin bendir í því sambandi á að nauðsynlegt geti verið að leita til sérfræðinga með ráðgjöf og reynslu frá öðrum ríkjum þannig að það verði hafið yfir vafa að þeir séu ekki hagsmunatengdir íslensku atvinnulífi þegar bestu lausna er leitað, segir enn fremur í nefndaráliti því sem skilað var í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert