Loforðin „greinilega orðin tóm“

Frá höfninni á Húsavík.
Frá höfninni á Húsavík. mbl.is/Golli

Aðalfundur Framsýnar, stéttarfélags Þingeyinga fordæmir harðlega ákvörðun Vísis hf. um að loka starfstöð fyrirtækisins á Húsavík 1. maí 2014 en við það misstu um 60 starfsmenn vinnuna. „Loforð og ráðagerðir Vísis hf. þegar fyrirtækið eignaðist Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf. um að efla starfsemina á Húsavík til muna eru greinilega orðin tóm,“ segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Framsýnar í gær.

Þá segir í ályktuninni:

„Þá er forkastanlegt að fyrirtækið ætli sér að komast hjá því að greiða starfsmönnum kjarasamningsbundinn uppsagnarfrest með því að beina þeim á atvinnuleysisbætur og ætla þar með ríkissjóði að standa við skuldbindingar fyrirtækisins. Í ljósi þessa hefur Framsýn falið lögfræðingum félagsins að stefna fyrirtækinu Vísi hf. fyrir félagsdóm.

Vegna þessarar tilraunar til misnotkunar á rétti fyrirtækja til að senda fólk heim í hráefnisskorti telur Framsýn einboðið að Alþingi breyti lögum um rétt fiskvinnslufyrirtækja til að fá endurgreiðslur frá Atvinnutryggingasjóði í hráefnisskorti vegna hráefnislausra daga. Það verður aldrei sátt um að fyrirtæki í fiskvinnslu reyni að leika á kerfið með þessum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert