„Þjóðarsátt“ um nýjan Landspítala

Svona gæti hluti nýs Landspítala litið út.
Svona gæti hluti nýs Landspítala litið út. Tölvumynd/SPÍTAL

„Þessi ályktun hefur mjög mikla þýðingu. Þetta er samþykkt og vilji Alþingis sem þarna kemur fram, 56 þingmenn samþykktu tillöguna og sjö voru fjarverandi eða með fjarvist,“ segir Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar og fyrsti flutningsmaður þingsálykunartillögu um byggingu nýs Landspítala. 

Hann segir „þjóðarsátt“ vera að skapast í málinu.

„Í greinargerð þingsályktunartillögunnar frá í vetur eru nefndir þrír möguleikar við fjármögnun verkefnisins,“ segir Kristján. „Í fyrsta lagi hefðbundin fjármögnun ríkisframkvæmda, í öðru lagi að ríkissjóður fjármagni framkvæmdina með lántöku og í þriðja lagi fjármögnun með sérstakri tekjuöflun, t.d. með sölu ríkiseigna,“ segir hann.

Sjálfur sér Kristján fyrir sér blandaða leið við fjármögnunina, sala ríkiseigna greiði fyrir hluta kostnaðar, hinn hlutinn verði tekinn að láni hjá „sneisafullum lífeyrissjóðum“. Hann horfir t.d. til hlutar ríkisins í Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka í þessu efni.

Fram kom í samtali Morgunblaðsins við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, í dag að hann telji að hægt sé að hefja framkvæmdir, enda hafi skipulagið verið samþykkt af hálfu Reykjavíkurborgar. Telur Páll raunhæft að nýr spítali verði opnaður 2020.

Ljúki undirbúningi eins fljótt og verða má

Alþingi samþykkti tillöguna með breytingum og áliti velferðarnefndar á föstudaginn var. Orðrétt segir í tillögunni:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja byggingu hans strax að því loknu “

Kristján lagði tillöguna fram í október sl. Hann segir hið einróma samþykki Alþingis á tillögunni hafa mikla þýðingu fyrir verkefnið. „Samþykkt Alþingis er risastórt skref í átt að því að mynda þjóðarsátt um þetta mikilvæga verkefni,“ segir Kristján.

Þótt velferðarnefnd hafi lítilega breytt orðalaginu skiptir það ekki máli. Greinargerðin sem slík er fullgild. Þar er rætt um hina ýmsa möguleika sem að mínu mati - og að okkar mati sem fluttum tillöguna - er vert að skoða og fara í gegnum til þess að kanna hvort hægt sé að finna fjármögnunarleið sem allir geta sætt sig við.

Ég hef verið þeirrar skoðunar og hef styrkst í því í vetur við frekari skoðun málsins,“ segir Kristján sem leggur áherslu á að framkvæmdin taki 4-5 ár.

Því sé um að ræða að jafnaði um 10 milljarða kostnað fyrir ríkissjóð á ári af byggingu spítalans á framkvæmdatímanum.

Hér er hægt að lesa um feril málsins á vef Alþingis.

Kristján Möller.
Kristján Möller. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka