Ein geðveik og önnur súludansmær

Gunnar Þorsteinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Gunnar Þorsteinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Þórður

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Krossins segir að Gunnar Þorsteinsson hafi sagt að þrjár konur væru að bera hann sökum, ein væri geðveik, önnur hafi látist úr alnæmi og sú þriðja væri súludansmær. Merkilegri væru þær sögusagnir ekki. Tengdist það fundi sem Gunnar hélt í Krossinum 9. nóvember 2010.

Björn Ingi Stefánsson bar vitni í meiðyrðamáli sem Gunnar höfðaði á hend­ur tveim­ur kon­um, fyrr­ver­andi rit­stjóra Press­unn­ar og út­gáfu­fé­lagi Press­unn­ar vegna frétta­flutn­ings af kon­um sem sökuðu Gunn­ar um kyn­ferðis­brot. Áður hefur verið greint frá skýrslu sem tekin var af Gunnari í morgun og einnig af annarri talskonu kvennanna.

Hann sagðist hafa fengið símtal mánudaginn 8. nóvember 2010 frá forstöðumanni trúfélagsins Catch the Fire. Sá sagði að konur hefðu leitað til hans um áreiti Gunnars. Þann dag hafi Gunnar verið staddur erlendis og Birni Inga hafi ekki tekist að hafa upp á honum. Daginn eftir hafi Björn Ingi hins vegar fengið smáskilaboð. „Það var herkvaðning og allir áttu að mæta í Krossinn.“

Björn Ingi sagði að þar hefðu þau verið mætt, Gunnar og Jónína Benediktsdóttir. „Þarna voru miklar umræður og ég blanda mér í þær. Ég vitna í heilaga ritningu um að ef tveir eða þrír bera vitni gegn öldung þá ber að hlusta. Þá var mér sagt að þetta væru þrjár konur, ein væri geðveik, ein hefði dáið úr AIDS og ein væri súludansmær.“

Þá sagðist hann hafa hvatt Gunnar eindregið frá því að ræða þessi mál við söfnuðinn strax en það hafi ekki verið hægt að fá hann ofan af því. Björn Ingi hafi þá sagt honum að hann þekkti sjálfur persónulega annað, þrettán ára, dæmi um áreiti af hálfu Gunnars. „Þá fékk ég yfir mig gusur og skammyrði og það endaði með því að ég varð að víkja frá og þessi fundur fór fram.“ Greint var frá þessum fundi á Pressunni og hann sagður neyðarfundur.

Björn Ingi sagði að eftir þetta hafi hann sjálfur verið kominn í hóp óvina Gunnars og orðið fyrir aðkasti í kjölfarið.

Hann sagði Krossinn ólíkan öðrum frjálsum söfnuðum og til dæmis hafi ekki verið hægt að ganga í hjónaband án þess að bera það undir leiðtogann og fleira í þeim dúr.

Aðalmeðferðin heldur áfram.

Frétt mbl.is: Hræddar vegna áreitis Gunnars

Frétt mbl.is: Rek­ur málið til hjóna­bands síns

Frétt mbl.is: Thelma fær að bera vitni

Frétt mbl.is: Thelma fær ekki að bera vitni

Frétt mbl.is: Gunn­ar vildi fjöl­miðlabann

Frétt mbl.is: Gunn­ar hyggst stefna Press­unni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert