Hræddar vegna áreitis Gunnars

Gunnar Þorsteinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Gunnar Þorsteinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Þórður

Önnur talskona þeirra kvenna sem sökuðu Gunnar Þorsteinsson, kenndan við Krossinn, um kynferðisbrot sagði við aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars gegn sér fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að aldrei hefði verið ætlunin að fara með mál þeirra í fjölmiðla.

Ásta Knútsdóttir, önnur tveggja talskvenna sem stefnt var í málinu fyrir meiðyrði, sagði ástæðu þess að farið var með málið í fjölmiðla vera viðtal sem birtist við Jónínu Benediktsdóttur í Fréttatímanum. Viðtalið var tekið í tengslum við útkomu bókar Jónínu og sagði hún meðal annars: „Ég óttast mest að það fari í gang skítaherferð gegn Gunnari manninum mínum. Ég veit hvernig þessir menn vinna og í ljósi þess hver á Birtíng [innsk. Fréttatímans: Hreinn Loftsson] þá kæmi mér ekki á óvart að einhver birtist á forsíðu Vikunnar og sakaði Gunnar um að hafa brotið á sér.“

Ásta segir að þetta hafi vakið reiði meðal kvennanna sem til þessa höfðu aðeins í hyggju að deila reynslu sinni innan hópsins og sækja þannig styrk. Þær hafi ákveðið að fara með málið fyrir stjórn Krossins og í kjölfarið í fjölmiðla. Afhenti Ásta blaðamanni Pressunnar afrit af bréfinu sem sent var á stjórnarmenn í Krossinum. Pressan greindi frá málinu 25. nóvember 2010.

„Þá fer í gang mjög hröð atburðarrás. Fjölmiðlar hringja stöðugt í konurnar og þær voru orðnar mjög hræddar vegna áreitis frá Gunnari og hans fjölskyldu sem hafði staðið yfir frá 10. nóvember,“ sagði Ásta og bætti við að þetta áreiti hefði ýtt á konurnar að fara með málið í fjölmiðla. „Þetta voru símhringingar og hótanir inn á talhólf.“

Hún sagði að Jónína hefði verið mjög ötul í að hringja og staðan hafi verið orðin þannig að konurnar þorðu ekki út úr húsi og tvær þeirra þorðu ekki að vera einar heima. „Í upphafi vakti eingöngu fyrir hópnum að hittast og deila reynslu sinni og fá styrk. Eftir að þetta lak til Gunnars og aðfarir hans hefjast sögðust þær ekki geta annað en að koma fram. Það var eina leiðin til að stoppa þessar ofsóknir.“

Ásta sagðist hafa litið á sig sem fjölmiðlafulltrúa kvennanna, til að taka skellinn sem þær treystu sér ekki að taka. Þá sagði hún að tilgangur þess að opinbera málið hafi verið „til að opinbera mann sem til margra ára hafði beitt kynferðisofbeldi og áreiti gegn konum og ungum stúlkum – til að koma í veg fyrir að fleiri konur yrðu honum að bráð.“

Aðalmeðferðin heldur áfram.

Frétt mbl.is: Rekur málið til hjónabands síns

Frétt mbl.is: Thelma fær að bera vitni

Frétt mbl.is: Thelma fær ekki að bera vitni

Frétt mbl.is: Gunn­ar vildi fjöl­miðlabann

Frétt mbl.is: Gunn­ar hyggst stefna Press­unni t

mbl.is

Bloggað um fréttina