Raunhæfast að vakta fjörðinn áfram

Mikið var af dauðri síld í Kolgrafafirði.
Mikið var af dauðri síld í Kolgrafafirði. mbl.is/Rax

Það er mat stjórnvalda að raunhæfasti og hagkvæmasti kosturinn til að draga úr líkum á síldardauða í Kolgrafafirði næsta vetur sé sú að vakta áfram fjörðinn með síritandi súrefnismæli og reyna að reka síldina út úr firðinum ef hætta er talin vera á ferðum.

Ekki sé þó hægt að útiloka hættu á síldardauða með þessu og ljóst sé að óvissa verður áfram fyrir hendi, að því er segir í frétt á vef umhverfisráðuneytisins.

Þar segir að um 80.000 tonn af síld hafi haft vetursetu í Kolgrafafirði, en síldin heldur yfirleitt til hafs í maímánuði. Því megi slá föstu nú að engin hætta sé á síldardauða lengur í firðinum á þessu tímabili, eins og varð veturinn áður.

„Einn stærsti óvissuþátturinn lýtur að því hversu mikið magn síldar mun leita inn í Kolgrafafjörð næsta haust. Ljóst er að mikið magn var þar veturinn 2012-2013, eða yfir 200.000 tonn þegar mest var. Magnið sl. vetur var mun minna og bendir flest til þess að þar séu elstu árgangar íslensku sumargotssíldarinnar á ferð,“ segir í fréttinni.

Aðstæður veturinn 2012-2013 óvenjulegar

Yngri árgangar virðist hafa haft vetursetu nú að mestu fyrir utan Suðausturland og í Kolluál utan við Snæfellsnes, auk þess sem nokkurt magn smásíldar hafi fundist í Hvammsfirði. Það sé þekkt að síldin breytir um hegðun hvað vetursetu varðar og óvíst sé hve lengi hún leitar inn í Kolgrafafjörð í miklum mæli.

Ýmislegt bendi því til þess að aðstæður veturinn 2012-2013 hafi ef til vill verið óvenjulegar.

„Ef þróunin verður sú að magn síldar í Kolgrafafirði fer minnkandi á næstu árum er ef til vill ekki ástæða til að grípa til róttækra aðgerða, sem yrðu mjög dýrar og hefðu mikið rask á umhverfi í för með sér. Því skiptir miklu máli að mæla innstreymi síldar í fjörðinn næsta haust vel og meta líkur á síldardauða og nauðsyn á viðbúnaði út frá því,“ segir jafnframt í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert