Rekur málið til hjónabands síns

Jónína Benediktsdóttir og Gunnar Þorsteinsson.
Jónína Benediktsdóttir og Gunnar Þorsteinsson.

Gunnar Þorsteinsson, sem jafnan er kenndur við Krossinn, segir að hjónaband sitt og Jónínu Benediktsdóttur sé grunnurinn að því að konur sökuðu hann um kynferðisofbeldi. Pressan hafi svo greint frá þeim ásökunum til að „ná ákveðnum markmiðum gagnvart Jónínu“.

Aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en hann krefst 15 millj­óna króna í skaðabæt­ur og af­sök­un­ar­beiðni frá tveim­ur kon­um og frá Vefpress­unni; fimm millj­óna frá hverj­um aðila fyr­ir sig vegna um­fjöll­un­ar um ásak­an­ir um kyn­ferðis­brot.

Gunnar sagði reyndar að málið hefði verið unnið á tvennum vígstöðvum; innan trúfélagsins Catch the Fire og á ritstjórnarskrifstofu Pressunnar. „Ég er þeirrar skoðunar að CTF, þetta ágæta trúfélag, hafi ætlað að nota þetta mál til að fá brautargengi með það sem þau eru að gera,“ sagði Gunnar en trúfélagið er ekki til í dag. „Það var reynt að safna saman hópi fólks til að fara með ásakanir á hendur mér og ég settur í stöðu þar sem ég gat ekki með neinum hætti varið mig.“

Hann sagði að einni konunni, þeirri fyrstu sem bar hann sökum, hefði verið lyft hærra innan þessa samfélags, CTF, eftir því sem ásakanir hennar urðu grófari. Loks hefði hún verið komin í guðatölu innan trúfélagsins. Ásakanir hennar hefðu fyrst komið upp eftir að Gunnar gekk í hjónaband með Jónínu Benediktsdóttur og það væri í raun grunnurinn að málinu. „Það má ljóst vera að það verður gríðarleg viðhorfsbreyting þegar ég geng í hjónaband. Hún hvorki sefur né borðar og byrjar að segja þessar ótrúlegu sögur um mig. Og þetta mál magnast og fer í þennan alvarlega farveg. Hún segir í lögregluskýrslu að hún hafi fyllst svo mikilli reiði að hún réði ekki við hana.“

Þá sagði Gunnar að útgáfa Jónínu Benediktsdóttur á ævisögu sinni hefði veri hvati Pressunnar til árása. „Í aðdraganda hrunsins benti hún á hvað væri að gerast og reyndi að fletta ofan af þeim öflum sem lögðu hér allt í rúst,“ sagði Gunnar og einnig að hún byggi yfir mjög meiðandi upplýsingum um fjársterka viðskiptamenn á Íslandi. „Á þessum tíma kemur út bók Jónínu þar sem eigendur Pressunnar eru settir í mjög alvarlegt ljós, mjög svo. Hún átti von á því að það yrðu einhver viðbrögð við þessu.“

Málin tengir hann saman með þeim hætti að ein þeirra kvenna sem voru í trúfélaginu Catch the Fire hafi starfað hjá Vefpressunni. „Þeir voru komnir með auga á þessa atburðarás. [...] Pressan þurfti að ná ákveðnum markmiðum gagnvart Jónínu og notaði þetta mál til þess.“

Aðalmeðferðin heldur áfram.

Frétt mbl.is: Thelma fær að bera vitni

Frétt mbl.is: Thelma fær ekki að bera vitni

Frétt mbl.is: Gunn­ar vildi fjöl­miðlabann

Frétt mbl.is: Gunn­ar hyggst stefna Press­unni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert