Reynt að smygla þýskum pylsum

Norræna á Seyðisfirði.
Norræna á Seyðisfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er mikil hefð fyrir því hjá Þjóðverjum að vera með matsölu í rútum en slíkt er hins vegar óheimilt hér á landi,“ segir Árni Elísson, tollvörður á Seyðisfirði, en talsvert hefur verið um það undanfarnar vikur að rútur frá Þýskalandi sem komið hafa til landsins með Norrænu hafi meðal annars verið með pylsur og vín meðferðis til þess að selja farþegum sínum. Slíkt er hins vegar ekki heimilt samkvæmt íslenskum lögum. Aðspurður segir hann að slíkt hafi gerst reglulega undanfarin ár.

„Þetta hefur verið viðvarandi vandamál. Það er lenska á meginlandi Evrópu og sérstaklega Þýskalandi að rútubílstjórar selja drykki og matvöru í rútunum. Þegar þeir síðan koma hingað er það ekki leyfilegt,“ segir Árni. Þannig komu nokkrar stórar rútur til landsins í morgun með Norrænu og var hald lagt á bæði pylsur og vín. Árni segir fyrst og fremst er um vanþekkingu á aðstæðum að ræða og slík mál séu allajafna leyst í góðri sátt. Það fari þó nokkuð eftir því hvernig staðið sé að málum.

Dæmi eru um að matvælin hafa verið geymd og bílstjórum leyft að taka þau aftur úr landi eftir tveggja daga viðdvöl í landinu. Þróunin í seinni tíð hafi hins vegar yfirleitt verið sú að matvælin eru einfaldlega tekin úr rútunum í ferjunni áður en rúturnar koma í land og í tollskoðun. Dæmi séu þó um að reynt hafi verið að fela matvælin í rútunum. Tekið sé hart á slíkum málum og hald lagt á matvælin.

mbl.is