„Söguleg stund“ í Ráðherrabústaðnum

Fulltrúar Bremenports, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og EFLU undirrituðu samninginn að viðstöddum …
Fulltrúar Bremenports, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og EFLU undirrituðu samninginn að viðstöddum forsætisráðherra og iðnaðarráðherra í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar steig nú einu skrefi nær því að eignast umskipunarhöfn í Finnafirði á Norðausturlandi í dag, þegar skrifað var undir samstarfssamning um rannsóknir og þróun á verkefninu. Forsætisráðherra segir staðsetningu Íslands vera að snúast frá því að vera hindrun í að verða helsti styrkleiki þess.

Samningurinn er milli Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, verkfræðistofunnar EFLU og þýska fyrirtækisins Bremenports, sem skoðað hefur möguleika hafnarstæðis í Finnafirði í nokkur skeið.

Viðstödd undirritunina í Ráðherrabústaðnum voru einnig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Hundraða milljóna króna rannsóknir framundan

Með samstarfssamningnum er staðfest ákvörðun þessara aðila um að vinna saman að mati á hagkvæmni alþjóðlegrar umskipunar- og þjónustuhafnar í Finnafirði og ábata fyrir nærliggjandi svæði og sveitarfélög. Áætlað er að heildarkostnaður við rannsóknirnar muni nema nokkur hundruð milljónum króna, sem Bremenports fjármagna.

Á þessu ári verður megináhersla lögð á söfnun gagna vegna umhverfismats, frumhönnunar og skipulags hafnarinnar. Gróður og fuglalíf á mjög stóru svæði í og við Finnafjörð verða skoðuð, gerðar jarðtæknilegar athuganir og veðurstöðvum komið fyrir á svæðinu og í mælibaujum. Þá verða gerðar nákvæmar landmælingar og kort.

Á næsta ári halda lífríkisrannsóknir áfram auk þess sem fornleifarannsóknum verður sinnt. Einnig verður lífríki fjöru og fjarðar rannsakað. Frumhönnun hafnarinnar mun hefjast sem og frumskoðun innra skipulags hafnarsvæðisins. Líklegt er að formlegt umhverfismatsferli geti hafist árið 2016 og má reikna með að það taki alls 2 ár.

Framkvæmdir gætu hafist 2018

Gangi allt eftir gætu framkvæmdir við Finnafjörð hafist árið 2018. Á komandi mánuðum munu eiga sér stað viðræður milli stjórnvalda og þróunaraðila Finnafjarðarhafnar um nauðsynlega innviði og grunngerð við Finnafjörð, s.s. raforkuafhendingu og vegagerð.  

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í samtali við mbl.is að mjög skemmtilegt væri að ýta þessu verkefni úr höfn. 

„Þessi þróun á norðurslóðum og tækifærin sem í henni felast hafa verið sérstakt áhugamál hjá mér frá því áður en ég byrjaði í stjórnmálum, þannig að það að sjá svona stóran viðburð verða að veruleika er auðvitað ákaflega skemmtilegt. “

Sigmundur segir ljóst að heimshöfn á þessum afskekkta stað muni augljóslega hafa mikil áhrif á byggð um norðanvert og austanvert landið, en líka um landið allt því um leið verði til tækifæri fyrir annars konar starfsemi.

Veikleiki Íslands verður styrkur

„Það má segja að með þessu verkefni og öðrum af sama toga sem menn eru að skoða, allt frá Eyjafirði að suðurfjörðum Vestfjarða, þá breytist staðsetning Íslands úr því að verða vandamál og hindrun í að verða einn af okkar helstu styrkleikum. Landið er í það sem kalla mætti miðpunkt flutningaleiða framtíðar, milli þessara þriggja risamarkaða í Austur-Asíu, Vestur-Evrópu og á vesturströnd Bandaríkjanna. Þannig að þetta er vissulega söguleg stund,“ segir Sigmundur Davíð.

Enn eru nokkur ár í að framkvæmdir gætu hafist ef af verður. Aðspurður hvort hann telji góðar líkur á því að slík stórskipahöfn verði að veruleika, en sé ekki bara fantasía, segist forsætisráðherra ekki heyra annað en að útlitið sé gott.

„Þessar rannsóknir eru fyrst og fremst ætlaðar til að staðfesta það sem mönnum hefur virst raunin, að þetta sé sérlega góð staðsetning bæði vegna legu landsins og aðstæðna í Finnafirði, svo að ef rannsóknirnar leiða ekkert óvænt í ljós, heldur staðfesta það sem menn telja rétt, þá má gera ráð fyrir að þetta verði að veruleika.“

Finnafjörður er við Langanesströnd á Norðausturlandi.
Finnafjörður er við Langanesströnd á Norðausturlandi. Ljósmynd/EFLA
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert