Veðja á Finnafjörð til framtíðar

Robert Howe, forstjóri þýska fyrirtækisins Beremenports.
Robert Howe, forstjóri þýska fyrirtækisins Beremenports. mbl.is/Árni Sæberg

Of snemmt er að segja til um hvort stórskipahöfn í Finnafirði á Langanesi verði að veruleika, en möguleikarnir eru miklir enda enginn vafi er á því að skipaumferð mun aukast um Norður-Íshafið. 

Þetta segir Robert Howe, forstjóri þýska fyrirtækisins Beremenports sem skrifaði í dag undir samstarfssamning við Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp um rannsóknir á svæðinu. Á næstu árum verður ráðist í rannsóknir á svæðinu fyrir hundruð milljóna króna, sem Bremenports fjármagnar. 

Engin önnur sambærileg verkefni

Bremenports er einn stærsti rekstraraðili umskipunarhafna í Evrópu og hefur víða skoðað valkosti á umskipunarhöfn í Norður-Atlantshafi. Aðspurður segir Howe þó að engin önnur verkefni séu nú í gangi, sambærileg við Finnafjörð.

„Í okkar huga hefur Finnafjörður mikla möguleika. Í ár og ekki síst á síðasta ári lögðumst við í mjög nákvæma skoðun og niðurstaðan er sú að verkefnið í Finnafirði sé það sem eigi mestar líkur á að verða að veruleika.“

Strax á næstu vikum verður hafist handa við að skoða gróður og fuglalíf á mjög stóri svæði í og við Finnafjörð, auk þess sem veðurstöðvar verða settar upp til að mæla vind og hafstrauma. „Svo munum við sjá hvað við þurfum að gera næstu 3-5 árin og það er fyrst 2017 eða 2018 sem við vitum fyrir víst hvort af þessu verður,“ segir Howe.

Nauðsynlegt að horfa til framtíðar

Það sem enginn vafi leiki hinsvegar á sé hinsvegar það að siglingar norðaustur af Íslandi muni aukast. „Það mun gerast í framtíðinni. Ekki á næstu 2-3 árum, en til framtíðar er alveg ljóst að þessi leið mun hafa gríðarleg áhrif á siglingar í heiminum.“

Aðspurður segir hann það ekki skipta höfuðmáli þótt Langanes sé einn afskekktasti staður á Íslandi, eins fjarri Reykjavík og hugsast getur. 

„Við þurfum orku, við þurfum flatlendi og við þurfum gott siglingasvæði. Finnafjörður er fullkominn að þessu þrennu leyti. Auk þess er hann við Norð-Austur siglingaleiðina og íslaus. Þetta þýðir að staðurinn er einstakur á Íslandi og sá besti til að þróa nýtt hafnarsvæði.“

Hann segir Bremenports því hafa mikla trú á verkefninu, en allt taki sinn tíma. „Þetta er ekki spretthlaup, þetta er langhlaup. Til að koma svona verkefni á koppinn þarf maður að hafa tíma og vera tilbúinn að leggja upp í langferð. Öðru vísi yrði aldrei hægt að láta nýja höfn verða til.“

Sjá einnig: „Söguleg stund“ í Ráðherrabústaðnum

Fulltrúar Bremenports, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og EFLU undirrituðu samninginn að viðstöddum …
Fulltrúar Bremenports, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps og EFLU undirrituðu samninginn að viðstöddum forsætisráðherra og iðnaðarráðherra í ráðherrabústaðnum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is