„Við erum ekki að gefast upp“

Úr myndbandinu.
Úr myndbandinu.

„Við fórum í það að gera þetta myndband um Djúpavog til þess að sýna að það er líf hér á svæðinu, það er fólk og kraftur í samfélaginu. Við erum ekki að gefast upp,“ segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, í samtali við mbl.is.

Sveitarfélagið hefur látið vinna myndband í samstarfi við og með stuðningi Afls starfsgreinafélags til þess að vekja fólk til umhugsunar um stöðu sveitarfélagsins en fyrr á árinu ákvað útgerðafyrirtækið Vísir í Grindavík að hætta starfsemi sinni á staðnum með þeim afleiðingum að fjöldi starfa hverfur frá honum. Myndbandinu sé þó ekki beint að fyrirtækinu heldur að stjórnvöldum.

„Við höfum snúið baráttu okkar nær alfarið að stjórnvöldum. Þau geta ein breytt friskveiðistjórnunarkerfinu þannig að svona samfélög geti lifað af. Við höfum beitt öllum þessum hefðbundnu aðferðum gagnvart stjórnvöldum til þess að sækja rétt okkar og þar sem þær hafa ekki dugað ákváðum við að fara óhefðbundnar leiðir eins og þessa,“ segir hann.

Kvikmyndagerðarmenn hafi verið fengnir á staðinn til þess að gera myndbandið og sýna fólki um hvað málið snýst. Draga upp rétta mynd af stöðu mála í sveitarfélaginu. „Bæði jákvæðu punktum sem eru í gangi og síðan verstu hugsanlegu afleiðingum sem þetta gæti haft ef það færi á versta veg. Vekja almenning til umhugsunar og ekki síður stjórnvöld. Það er komið að ákveðnum mörkum í þessu, það verður ekki gengið lengra gagnvart þessum byggðum.“

mbl.is