Umfjöllunin lagði líf Gunnars í rúst

Gunnar Þorsteinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun.
Gunnar Þorsteinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gærmorgun. mbl.is/Þórður

„Staðan er sú að það er ósannað í þessu máli að stefnandi hafi framið þau brot sem honum er borið á brýn,“ sagði Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Gunnars Þorsteinssonar, í málflutningsræðu sinni við aðalmeðferð í meiðyrðamáli Gunnars í morgun. Hann krefst ómerkingar fjölda ummæla um Gunnar.

Ummælin sem krafist er ómerkingar á birtust í tíu greinum vefmiðilsins Pressunar og voru þær flestar birtar á tímabilinu 23.-30. nóvember 2010. Einar Hugi sagði að vegna umfjöllunar Pressunnar hafi um fátt annað verið fjallað þessa síðustu daga í nóvember og fyrstu daga í desember 2010. „Það sem gerir þetta mál óvenjulegt er hin mikla útbreiðsla þessara ummæla,“ sagði Einar Hugi og bætti við að þau væru líklega án hliðstæðu í réttarfarssögu Íslands.

Hann sagði þá útbreiðslu og eðli ásakananna gera málið grafalvarlegt. „Staðreyndin er sú að þessi umfjöllun lagði líf stefnanda nánast í rúst og þetta gerðist á einni nóttu. Veröldin hrundi yfir stefnanda.“

Einar Hugi sagði það liggja fyrir að lögreglan rannsakaði umræddar ásakanir eftir að konurnar kærðu Gunnar. Niðurstaðan hafi verið sú að rannsókn var hætt þar sem ekki þótti grundvöllur fyrir frekari rannsókn. Það sé grundvallaratriði í málinu. Hann sagði þá staðreynd leiða af sér þann veruleika að í meiðyrðamáli Gunnars gegn tveim­ur kon­um, fyrr­ver­andi rit­stjóra Press­unn­ar og út­gáfu­fé­lagi Press­unn­ar sé útilokað að sanna með lögfullum hætti sekt Gunnars á umræddum meintum brotum. „Þetta er ekki refsimál heldur einkamál, sem Gunnar höfðar til ómerkingar ummæla.“

Þetta sagði hann leiða af sér að engu breyti þótt ætlaðir brotaþolar hafi komið fyrir dóm í gær og lýst ætluðum brotum. „Það vegur ekki þyngra en eindregin neitun Gunnars frá upphafi. Það eru engin vitni að hinum ætluðu brotum. Engin vitni hafa borið um að hafa séð þetta með eigin augum. Það sem eftir stendur eftir þá miklu sönnunarfærslu sem fram fór í gær er að stefnandi er með hreint sakarvottorð, hefur aldrei hlotið refsidóm. Hann hefur aldrei hlotið dóm fyrir refsiverða háttsemi. Það er það sem stendur eftir.“

Ekki talað um ætluð brot

Einar Hugi sagði að þrátt fyrir þessa staðreynd hafi Gunnar verið ítrekað nafngreindur í tengslum við ásakanir um kynferðisbrot, og án þess að nokkrar sannanir lægju fyrir. Ummælin sem birt hafi verið á Pressunni séu einnig sum hver skólabókadæmi um ærumeiðandi ummæli og farið hafi verið langt út fyrir mörk tjáningarfrelsis. „Það er ekki verið að hafa fyrir því að tala um ætluð brot eða meint brot heldur fullyrt án nokkurs fyrirvara. Gunnar hefur aldrei verið dæmdur fyrir kynferðisbrot, eða önnur brot. Því blasir við að ómerkja beri þessi ummæli.“

Meðal ummæla sem krafist er ómerkingar á eru:

Kröfum í málinu er beint að tveimur talskonum þeirra kvenna sem sökuðu Gunnar um kynferðisbrot þegar ummælin eru höfð eftir þeim innan gæsalappa og þegar vitnað er í bréf sem þær skrifuðu undir. Í öðrum tilvikum beinast kröfurnar að fyrrverandi ritstjóra Pressunnar.

Útbreiðslan alveg gríðarleg

Farið er fram á að Gunnari verði dæmdar fimmtán milljónir króna í miskabætur. Einar Hugi sagði að krafan væri vissulega há miðað við dómafordæmi Hæstaréttar í sambærilegum málum, en málið sé um margt óvenjulegt. „Þetta er einstakt mál varðandi fjölda og útbreiðslu þeirra ummæla sem um ræðir. Hér er um að ræða endurtekin og ítrekuð nafngreining stefnanda í tengslum við þessar alvarlegu ásakanir. Útbreiðslan var alveg gríðarleg.“

Hann sagði afleiðingarnar þær að Gunnar missti æru sína og mannorð á einni nóttu, 23. nóvember 2010. „Þetta hefur haft í för með sér óbætanlegan skaða fyrir stefnanda enda nafn hans um aldur og ævi tengt kynferðisbrotum. Brotum sem hann hefur ávallt neitað fyrir og aldrei dæmdur fyrir.“

Einar Hugi sagði það ekki aðeins mannorðið sem Gunnar hafi misst í kjölfar umfjöllunarinnar. „Heldur einnig að hann hrökklaðist úr starfi sínu sem forstöðumaður Krossins. Ævistarfinu sem hann hafði helgað lífi sínu. Úr því starfi hrökklaðist hann eftir að hafa gegnt því i rúman aldarfjórðung. Þetta er ástæðan fyrir því að sett er fram rífleg miskabótakrafa. Líf mannsins var lagt í rúst.“

Þá hafi Gunnar misst stóran hluta vina og kunningja og málið hafi reynt gríðarlega á hans nánustu fjölskyldu.

„Er það í lagi að fjölmiðlar taki upp og fullyrði um refsiverð brot án þess að það hafi komið fram kæra eða menn verið til rannsóknar? Svarið hlýtur að vera nei. Það er ekkert í lagi. Hæstiréttur hefur alla vega litið þannig á þetta,“ sagði Einar Hugi. „Mörkin eru dregin við ásakanir um refsiverða háttsemi. Þar eru mörkin dregin og um leið og farið er yfir þessi mörk án þess að það liggi fyrir sönnun er um ærumeiðandi ummæli að ræða. Ummælin í þessu máli eru þessu marki brennd og því ber að ómerkja þau.“

Aðalmeðferðin heldur áfram en henni lýkur í dag.

mbl.is