Sjóðsstjóri Boreas Capital greiði 21 milljón

Sjóðsstjóri og stofn­andi vog­un­ar­sjóðsins Bor­eas Capital var í Hæstarétti í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 21 milljón króna í sekt vegna skattsvika. Átta mánaða fangelsi kemur í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins.

Ragnar Þórisson var ákærður fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram fjármagnstekjur að fjárhæð 120.026.444 krónur sem voru tekjur hans af uppgjöri tveggja framvirkra skiptasamninga.

Talið var að hagnaður Ragnars af gerð umræddra framvirkra skiptasamninga hefði falið í sér skattskyldar fjármagnstekjur og að ekki hefði staðið heimild til að draga frá þeim tap af öðrum sams konar samningum eða beinan kostnað við öflun teknanna. Ekki var fallist með honum að um hefði verið að ræða tekjur í sjálfstæðri atvinnustarfsemi.

Þá leysti það Ragnar ekki undan refsiábyrgð þótt samningsaðili hans hefði vanrækt skyldu sína til að standa skil á skattinum eftir lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

mbl.is