Lífið heldur áfram hjá Svandísi

Lífið heldur áfram hjá Svandísi þrátt fyrir áfallið í fyrra.
Lífið heldur áfram hjá Svandísi þrátt fyrir áfallið í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir brostnar vonir síðasta vor hefur líf glæðst að nýju hjá hinni ástsælu álft Svandísi í hólmanum í Bakkatjörn á Seltjarnarnesi. Grunur var um að hún eða ektamakinn væru orðin ófrjó og því um miklar gleðifregnir að ræða.

Svandís hefur komið tugum unga á legg í 18 sumra varpsögu hennar í hólmanum á Bakkatjörn, en sumarið 2013 reið áfallið yfir, því Svandís lá á fúleggjum. Sjá fyrri frétt mbl.is: Brostnar vonir Svandísar.

Ófrjósemin ógnaði sambandinu

Svanir eru langlífir fuglar sem para sig til lengri tíma, jafnvel til lífstíðar, en fuglafræðingar sem mbl.is ræddi við í fyrra sögðu hættu á því að til sambandsslita kæmi hjá Svandísi þar sem varpið klikkaði. Ekki lá þó ljóst fyrir hvort ófrjósemin væri hennar megin eða hans.

Í gær bar þó heldur betur til tíðinda í hólmanum, því rétt fyrir hádegi sást til unga á svamli með föður sínum, skammt frá álftinni Svandísi.

Eftir langt umsátur tókst ljósmyndara Morgunblaðsins að fanga tvo á mynd. Leiða má líkur að því að þeir verði fleiri áður en yfir lýkur, því Svandís lá enn á undir kvöldið.

Ekki fylgir sögunni hvort steggurinn er sá sami eða hvort Svandís hefur náð sér í nýjan lífsförunaut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert