Sterkari í kosningum en könnunum

Ráðhús Reykjavíkur
Ráðhús Reykjavíkur mbl.is/Eggert

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR um fylgi stjórnmálaflokka fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík mælist Fram­sókn­ar­flokk­ur og flug­vall­ar­vin­ir með 5,3%. Verði þetta niðurstaða kosninganna er flokkurinn einn þriggja sem ná ekki inn manni, en hinir tveir eru Dögun, sem mældist með 2,6%, og Alþýðufylkingin með 0,2%.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir er oddviti framsóknarmanna og flugvallarvina í Reykjavík. Spurð hvort ekki sé áhyggjumál að flokkurinn nái samkvæmt könnun MMR ekki inn manni svo skömmu fyrir kjördag kveður hún nei við.

„Ég er bara nokkuð glöð. Ég held að við höfum verið með 4,5% síðast þannig að ég er bara ánægð og þakklát fyrir þennan stuðning sem ég hef þó verið að fá,“ segir Sveinbjörg Birna og bætir við að Framsóknarflokkurinn komi alltaf sterkari út úr kosningum en könnunum. „Við verðum bara að bíða og sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum á laugardaginn.“

Samfylking og Björt framtíð með 53,5%

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, kveðst vera mjög þakklátur fyrir þann stuðning sem honum er sýndur í könnun MMR en Samfylkingin mælist þar með 29,5% auk þess sem samanlagt fylgi flokksins og Bjartrar framtíðar mælist nú 53,5%.

„Þetta gefur góðar vonir svona við upphaf loka vikunnar en við ætlum engu að síður að halda vel á spöðunum,“ segir Dagur og bendir á að Samfylkingin hafi að undanförnu verið að styrkja stöðu sína. „Það eru mjög margir sem tala um það að fólk vilji áfram frið og stöðugleika í borginni og ég vona að það nýtist okkur.“

Aðrir flokkar fá samkvæmt könnun MMR eftirfarandi fylgi: Sjálf­stæðis­flokk­ur 21,1%, Vinstri-græn 9% og Pírat­ar 8,2%. Yrðu þetta niður­stöður kosn­ing­anna myndi Sam­fylk­ing­in fá fimm borg­ar­full­trúa, Björt framtíð og Sjálf­stæðis­flokk­ur fjóra borg­ar­full­trúa hvor og Vinstri-græn og Pírat­ar einn full­trúa hvor.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert