Lárus vissi ekki af tveggja milljarða tapi

Lárus Welding gaf skýrslu sem vitni í málinu.
Lárus Welding gaf skýrslu sem vitni í málinu. Styrmir Kári

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis banka, fékk ekki vitneskju um uppgjör eignarhaldsfélagsins BK-44 í júlí 2008 sem fól í sér tveggja milljarða króna tap fyrir Glitni banka. Hann sagðist ekkert hafa þekkt til 3,8 milljarða króna lánveitingar Glitnis banka til BK-44 í nóvember 2007.

Aðalmeðferð í BK-44-málinu svonefnda hófst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Í því eru fjórir fyrrverandi starfsmenn Glitnis ákærðir, þeir Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, Elmar Svavarsson, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arnar Arngrímsson, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs. Fjórði maðurinn og eigandi félagsins BK-44 er svo Birkir Kristinsson, sem starfaði í einkabankaþjónustu Glitnis.

Ákæruatriðin snúa að umræddri lánveitingu til BK-44 í nóvember 2007 og uppgjörsins í júlí 2008 sem hafði í för með sér tveggja milljarða króna tap fyrir bankann.

Hraustleg viðskipti

Eftir fyrsta dag aðalmeðferðar málsins er ljóst að allir sakborningar neita sök og virðist sem ansi margt sé enn á huldu þrátt fyrir að skýrsla hafi verið tekinn af þeim öllum auk þriggja vitna. Tímalínan virðist þó nokkuð ljós.

Þann 5. nóvember 2007 voru samskipti á milli Elmars og starfsmanns hjá eignarhaldsfélaginu Gnúpi. Var greinilegt á þeim gögnum sem sýnd voru í dómsal 101 í dag að Gnúpur vildi selja 150 milljón hluti í Glitni og átti Elmar að sjá um söluna. Eftir að hafa ráðfært sig við starfsmann hjá eigin viðskiptum Glitnis fékk Elmar uppgefið gengið 26,6 og tjáði starfsmanni Gnúps að Glitnir væri tilbúinn að kaupa bréfin á því verði.

Hlutabréfin, 150 milljón hlutir, voru um það bil eitt prósent hlutur í Glitni. „Þetta myndu teljast frekar hraustleg viðskipti,“ sagði Elmar fyrir dómi í dag um eignarhlutinn. 

Elmar fór strax í það að finna kaupanda að bréfunum, enda reyndi Glitnir á þessum tíma markvisst að losa sig við eigin bréf. Kemur þá að Birkis þætti Kristinssonar.

Gnúpur, MK-44 og BK-44

Þrátt fyrir að sakborningar hafi af fremsta mætti reynt að skilja á milli sölu Gnúps og kaups BK-44 verður að nefna að aðaleigandi Gnúps var Magnús Kristinsson, bróðir Birkis, og að félagið BK-44 hét áður MK-44 og var einnig í eigu Magnúsar. 

Í sjálfstæðri frásögn Birkis fyrir dómi í morgun lýsti hann aðkomu sinni að málinu. „Eins og kemur fram í greinargerð ákæruvaldsins og einnig minni þá átti ég ekki frumkvæði að kaupunum. Ég átti að kanna hjá viðskiptamönnum einkabankaþjónustunnar hug þeirra til þessara viðskipta. Þegar í ljós kom að það hentaði ekki var BK-44 boðið að taka þátt. Ég ákvað að taka þátt í viðskiptunum enda taldi ég að ég myndi hagnast á þeim.“

Gerður var svonefndur „zero cost“-samningur við BK-44 sem þýddi það að félagið fékk sölurétt á bréfunum. Með þessu fyrirkomulagi var félagið varið fyrir lækkun bréfanna en fyrir vikið var hagnaðarvonin takmörkuð. Félagið sjálft lagði ekkert út en fékk peningamarkaðslán þann 12. nóvember 2007 upp á fjóra milljarða króna. Lánið var notað til að kaupa 150 milljónir hluta í Glitni á genginu 25,2. „Mér fannst þetta geta hentað félaginu ágætlega. Þetta var mjög sterkt félag og ekki skuldsett. Þetta var stór staða og þurfti litlar hækkanir til að félagið hagnaðist.“

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, spurði Birki meðal annars út í bréfin sem Gnúpur seldi fáeinum dögum fyrir viðskiptin og sagðist hann ekkert hafa vitað af þeirri sölu. Hann var einnig spurður út í hvaða áhættu hann hugsanlega gæti borið með samningi sem þessum. Sagði Birkir að áhættan fælist í því að mótaðilinn, Glitnir, gæti ekki uppfyllt sinn hluta samningsins. Til þess hefði bankinn þurft að fara í greiðsluþrot.

Bréfin lækkuðu og lánið safnaði vöxtum

Viðskiptin gengu eftir, bréfin í Glitni lækkuðu og peningamarkaðslánið safnaði vöxtum. Það var veitt til eins mánaðar og ítrekað framlengt, allt þar til það var gert upp í júlí 2008. Reyndar voru 30 milljón hlutir seldir í apríl 2008 fyrir um hálfan milljarð króna og andvirðið sett upp í höfuðstól lánsins. Sérstakur saksóknari gerði því skóna að sökum þess að lánið var komið yfir fjóra milljarða og þar með út fyrir lánamörkin hafi verið brugðið á það ráð. Aðrir könnuðust varla við þennan þátt málsins. Eftir þessi viðskipti stóð lán BK-44 í 3,6 milljörðum króna. Og áfram hækkaði lánið og bréfin lækkuðu í verði.

Lokauppgjörið fór svo fram 22. júlí 2008. Þá voru 120 milljónir bréfa seld fyrir 1,8 milljarða króna. Gengið var 14,95. „Þá erum við komin í júlí 2008 og kemur í ljós að þessir valréttir komu aldrei inn í kerfið hjá okkur,“ sagði Elmar í skýrslu sinni. Staðan var því sú að BK-44 var búið að selja 150 milljónir hluta í Glitni  fyrir um 2,3 milljarða króna og enn átti eftir að brúa bilið til að tryggja að BK-44 sæti ekki uppi með tapið.

Sérstakur saksóknari: „Hvert var höggið af þessu fyrir eigin viðskipti bankans?“

Elmar: „Það var eitthvað yfir tveir milljarðar.“

Sérstakur saksóknari: „Út af þessu?“

Elmar: „Já.“

Keyptu bara aftur og á hærra gengi

Þegar í ljós kom að sölurétturinn var aldrei skráður í kerfi Glitnis varð uppi fótur og fit. „Regluvörðurinn er kallaður til og þá er spurt hvað eigi að gera og á hvaða verði. Regluvörðurinn kemur með útfærslu á þessu og fer fram á að þetta verði rekjanlegt. Það var ákveðið að koma honum [Birki Kristinssyni] út á núlli. Það var ákveðið þarna. Ákvörðunin var tekin af regluverðinum.,“ sagði Elmar.

Bréfin voru færð fram og til baka og lýkur það með því að Glitnir kaupir bréfin af BK-44 á genginu 31,82 eða meira en tvöföldu markaðsvirði umræddan dag. „Ég kom ekki nálægt þessu uppgjöri,“ sagði Birkir sem áttaði sig ekki einu sinni á því að 35 milljónir króna sátu eftir hjá BK-44 vegna uppgjörsins. „Það var löngu síðar sem ég áttaði mig á því að það væri mismunur.“

Elmar sagði að þetta hefði verið einföld og góð leið til að klára málið. Hvað varðar hagnaðinn sem eftir var hjá BK-44 sagði Elmar að mistök hefðu orðið við útreikninginn. Það hefðu hins vegar ekki verið hans mistök enda ekki hans að taka ákvörðun um uppgjörið.

Hvað varðar þau mistök að skrá ekki söluréttinn inn í kerfi Glitnis sagði Elmar: „Það var í mínu starfi. [...] Það er klárlega á mína ábyrgð, ég átti að ganga á eftir því að þetta yrði klárað.“

Mistök við skjalagerð algeng

Regluvörður Glitnis á þessum tíma, og núverandi regluvörður Íslandsbanka, gaf einnig skýrslu í gær. Hann sagðist hafa fengið símtal frá Elmari 22. júlí 2008. „Hann biður mig að koma því hann þurfi að ræða við mig um mál. Hann sagði að það hefðu verð gerð mistök þarna á sínum tíma og þeir ættu ekkert um þetta. Ég sagði honum að þeir yrðu að finna eitthvað um þennan sölurétt.“

Fundað var um málið og á þeim fundi var meðal annars rætt um það hvort senda ætti út afkomuviðvörun vegna tapsins. „Það var mat Jóhannesar [Baldurssonar] og mitt að þetta var ekki svo mikið tap að það þyrfti að tilkynna það og senda út afkomuviðvörun.“

Hann hafnaði því alfarið að eiga hugmyndina að þeirri útfærslu sem síðan ákveðið varð úr eða að hafa veitt heimild til að fara þá leið. Hann staðfesti hins vegar að hafa farið fram á að viðskiptin væru sýnileg og rekjanleg. „Ég sagði eðlilegt að þetta yrði ekki dregið upp úr hatti. [...] Ég vildi að þetta yrði gert þannig að þeir skráðu þetta í kerfið svo bókhald og allt væri í lagi.“

Regluvörðurinn var spurður út í það hvort mikið hefði verið um mistök við skjalagerð. Hann viðurkenndi það og sagði miður. Hann hafi þannig dæmi um að samningar hafi verið tvíbókaðir og hafi upphæðir stundum hlaupið á milljörðum. „Það var algengt [að mistök væru gerð].“

Hann sagði jafnframt að sér hafi þótt sú leið sem farin var ekki óeðlileg.

Lítið vitað um tölvubréf Magnúsar 

Eitt það ótrúlegasta í BK-44-málinu snýr að peningamarkaðsláninu sem félagið fékk. Sérstökum saksóknara hefur aðeins tekist að finna eitt skjal í öllum Glitni þar sem fjallað er um samþykkt lánveitingarinnar. Það er tölvubréf Magnúsar Arnars Arngrímssonar til Elmars, Jóhannesar og ritara áhættunefndar bankans. „Ég er kominn með samþykki fyrir pm mörkum á bk-44 [...] upp á 4ma og í sex mánuði.“

Þetta er allt sem sérstakur saksóknari hefur um samþykkt lánsins. Magnús Arnar hefur ekki önnur tengsl við málið en þetta eina tölvubréf og er hann gjörsamlega minnislaus þegar kemur að þessu tölvubréfi. 

Sérstakur saksóknari: „Af hverju sendir þú þennan póst?“

Magnús Arnar: „Ég geri ráð fyrir að ég hafi fengið fyrirmæli frá yfirmanni mínum umað senda þetta.“

Sérstakur saksóknari: „Frá hverjum?“

Magnús Arnar: „Ég man það ekki.“

[...]

Sérstakur saksóknari: „Hverjir samþykktu þetta?“

Magnús Arnar: „Ég veit það ekki. Ég sendi þetta á ritara áhættunefndar, væntanlega í þeirri trú að þetta hafi verið samþykkt í áhættunefnd.“

Sérstakur saksóknari: „En hvers vegna sendir þú Elmari og Jóhannesi þetta?“

Magnús Arnar: „Ég fékk væntanlega einhver fyrirmæli um það.“

Enginn einn sem tekur þessa ákvörðun

Magnúsi er vorkunn, svo framarlega sem hann er að segja satt. Ekki nokkur maður í málinu ber við að hafa átt samskipti við Magnús vegna lánveitingarinnar. Reyndar kannast enginn við að hafa óskað eftir umræddu láni. Magnús sjálfur segist hafa farið í gegnum tölvubréf sín og önnur gögn. Hann hafi komist að því að hann hafi sjálfur verið með tvö mál til kynningar í áhættunefnd þennan dag, 7. nóvember 2007. „Tölvubréf mín bera með sér að það sem ég vildi gera, vildi ég gera vel. Þetta mál var ekki á mínu borði og ég hefði aldrei sent þetta svona frá mér.“

Magnús hafði ekki umboð til að samþykkja hærra lán en upp á 20 milljónir. En hann gat ekki sagt til um það hver tók ákvörðunina sem hann miðlaði áfram. Ekkert kemur fram í fundargerðum áhættunefndar eða lánanefnda.

Sérstakur saksóknari: „Kanntu skýringar á því?“

Magnús Arnar: „Nei, og mér finnst mjög leiðinlegt að kunni þær ekki því annars sæti ég ekki hér.“

Hann sagði síðar algjörlega ljóst að enginn einn maður í bankanum hafi tekið ákvörðun um að lána 3,8 milljarða króna upp á sitt einsdæmi. Og ef hann ætlaði að brjóta reglur bankans hefði hann sannarlega ekki sent póstinn einnig á ritara áhættunefndar. Magnús sagðist einnig enga hagsmuni hafa haft af því að beita sér, hann hafi ekki þekkt forsöguna og ekki komið að málinu með einum eða öðrum hætti.

Mögulega fæst fleira upplýst á öðrum degi aðalmeðferðarinnar á morgun. 

Elmar Svavarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Elmar Svavarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Þórður
Birkir Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Birkir Kristinsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Þórður
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert