Óskráð samskipti með spjallforriti

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, og aðstoðarmenn hans í Héraðsdómi …
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, og aðstoðarmenn hans í Héraðsdómi Reykjavíkur við aðalmeðferð í BK-44-málinu. Þórður Arnar Þórðarson

Starfsmenn Glitnis banka áttu í miklum samskiptum í gegnum spjallforritið MSN á meðan bankinn var starfandi. Þau samskipti voru ekki skráð og eru því ekki á meðal þeirra gagna sem sérstakur saksóknari lagði hald á við húsleitir sínar í tengslum við rannsókn á lögbrotum frömdum innan bankanna.

Annar dagur aðalmeðferðar í BK-44-málinu svonefnda fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Í því eru fjórir fyrrverandi starfsmenn Glitnis ákærðir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Mennirnir, Birkir Kristinsson, Magnús Arnar Arngrímsson, Jóhannes Baldursson og Elmar Svavarsson, neita allir sök.

Ákæran snýr að 3,8 milljarða króna lánveitingu Glitnis til félagsins BK-44 en lánsféð var notað til kaupa á 150 milljón hlutum í bankanum í nóvember 2007. Þá er ákært fyrir það hvernig sá samningur sem gerður var við BK-44 var gerður upp innan bankans, en uppgjörið hafði för með sér tveggja milljarða króna tap fyrir Glitni.

Athygli hefur vakið við aðalmeðferðina hversu rýr gögnin eru um þær ákvarðanir sem teknar voru í tengslum við viðskiptin, hvort sem er um samþykkt peningamarkaðsláns til BK-44 eða ákvarðanir um ítrekaða framlengingu lánsins. Þannig virðist eingöngu vera til eitt tölvubréf sem vísar til þess að samþykkt hafi verið að veita lánið og engin gögn til um framlengingu lánsins, önnur en kvittanir.

Meðal þeirra gagna sem eru í málinu eru símtöl milli starfsmanna bankans og tölvubréf. Enn sem komið er hafa þessi gögn ekki varpað skýru ljósi á ákvarðanatöku vegna viðskiptanna. Í morgun kom hins vegar fyrir dóminn maður sem starfaði sem sérfræðingur í gjaldeyrismiðlun hjá Glitni.

Verjandi Elmars spurði manninn út þessi samskipti í gegnum spjallforritið MSN. Hann staðfesti að mjög mikil samskipti hefðu verið á milli starfsmanna Glitnis í gegnum forritið og að allt eins hafi ákvarðanir í viðskiptum getað verið teknar með þeim hætti. Símtöl starfsmanna voru ávallt tekin upp og tölvupósta mátti sækja á vefþjóna. Samskiptin í gegnum spjallforritið voru hins vegar ekki skráð.

Þegar tekið er mið af því hversu slæmt minni starfsmanna Glitnis er orðið varðandi atburði sem gerðust á árunum 2007 og 2008 verður að telja að samskipti þeirra á milli í gegnum nefnt spjallforrit séu fallin í gleymskunnar dá.

mbl.is