Fangelsi fyrir minnisleysi?

Magnús Arnar Arngrímsson og Almar Möller, lögmaður.
Magnús Arnar Arngrímsson og Almar Möller, lögmaður. mbl.is/Þórður

„Sérstakur saksóknari fer fram á fjögurra ára fangelsi yfir skjólstæðingi mínum fyrir að muna ekki eftir aðdraganda að sendingu einfalds tölvupóstar,“ sagði Helgi Birgisson, verjandi Magnúsar Arnar Arngrímssonar sem ákærður er í svonefndu BK-44-máli, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Magnús Arnar er ákærður fyrir að hafa upp á sitt einsdæmi samþykkt 3,8 milljarða króna lánveitingu til félagsins BK-44 í nóvember 2007. Á þessum tíma var Magnús Arnar millistjórnandi á fyrirtækjasviði bankans og mátti eingöngu samþykkja lán upp á 20 milljónir króna án þess að bera það undir lánanefnd eða áhættunefnd.

Eins og komið hefur fram á mbl.is er aðeins eitt skjal í málinu sem bendlar Magnús Arnar við það, tölvubréf sem hann sendi til tveggja annarra ákærðu, ritara áhættunefndar og starfsmanns gjaldeyrismiðlunar. Í því sagði: „Ég er kom­inn með samþykki fyr­ir pm mörk­um á bk-44 [...] upp á 4ma og í sex mánuði.“

Ekkert liggur fyrir um það hver samþykkti lánveitinguna og var málið hvorki skráð í fundargerðir lánanefnda eða áhættunefndar. Sérstakur saksóknari telur því að Magnús Arnar hafi misnotað aðstöðu sína og samþykkt lánið sjálfur. Krafist er fjögurra ára fangelsis yfir Magnúsi Arnari vegna þess.

Líkindi við Al-Thani-málið

Verjandi Magnúsar Arnars vísaði til Al-Thani-málsins varðandi stöðu hans í málinu. Í því máli var Halldór Bjarkar Lúðvígsson ekki ákærður en ahnn var viðskiptastjóri útlána innan Kaupþings. Halldór Bjarkar hélt því fram að hann hefði fengið fyrirmæli um lánveitingu frá Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra Kaupþings, en ekkert fannst um það í fundargerðum. Í dómnum segir: „Ósennilegt verður að telja að viðskiptastjóri á útlánasviði bankans hafi tekið um það ákvörðun að veita lán til félagsins Brooks Trading Ltd. án þess að hafa til þess skýr fyrirmæli yfirboðara sinna. [...] Verður því lagt til grundvallar að ákærði, Hreiðar Már, hafi á fundinum 18. september 2008 eða í tengslum við hann gefið viðskiptastjóranum Halldóri Bjarkari fyrirmæli um að lán til félagsins Brooks Trading Ltd. skyldi vera í formi peningamarkaðsláns og að lánið skyldi greitt út þegar í stað þó svo ekki lægi fyrir samþykki lánanefndar stjórnar bankans.“

Sagði hann þetta í samræmi við það sem komið hafi fram í BK-44-málinu. Þannig hafi Lárus Welding, þáverandi forstjóri bankans, og Guðmundur Hjaltason, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og næsti yfirmaður Magnúsar, ekki útilokað að hafa samþykkt lánið og komið þeim skilaboðum til Magnúsar að tilkynna umræddum aðilum um þá samþykkt. Lárus hafi sagt að samþykki á göngum bankans hafi verið fullnægjandi, hefðu menn til þess heimildir, og í skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara hafi Lárus beinlínis sagt að Magnús hafi fengið samþykki í samtölum við sig eða einhverja meðlimi áhættunefndar. Hins vegar hafi gleymst að bóka það.

Þá vísaði Helgi til þess sem kom fram hjá regluverði bankans og yfirmanni lögfræðisviðs um að mistök hefðu verið tíð og algengt að skráningar gleymdust. Það hafi verið miður og sífellt hafi verið reynt að gera úrbætur en þetta hafi engu að síður oft komið fyrir.

Óþarft að sniðganga áhættunefnd

Ennfremur sagði Helgi að ákæruvaldið þyrfti að sanna að Magnús hafi farið framhjá lánanefndum og áhættunefnd til þess að tryggja BK-44 lánið. Hann benti á að það hefði verið algjör óþarfi fyrir Magnús enda sögðu meðlimir áhættunefndar bankans fyrir dómi að ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að samþykkja lánið í nefndinni. Um hafi verið að ræða sterkt félag og skuldlaust við bankann. Samþykkt áhættunefndar hafi því verið auðfengin og óskiljanlegt hvers vegna Magnús ætti að sneiða framhjá henni.

Magnús hefur sjálfur borið um að muna ekki eftir að hafa sent tölvupóstinn eða hvers vegna. Líklega hafi það verið vegna fyrirmæla frá yfirmönnum sínum. Þetta tiltekna lánamál hafi ekki verið á hans borði og gögn beri þess ekki merki að hann hafi unnið að því. Hann hafi eingöngu miðlað þeim upplýsingum áleiðis að samþykkt hafi fengist á ákveðnum lánamörkum.

Verjandi hans benti á að ef Magnús væri svo forhertur að hann samþykkti sem millistjórnandi 3,8 milljarða króna lánveitingu án þess að hafa af því nokkra hagsmuni væri best að líta til þess hvert hann sendi póstinn um nefnda samþykkt. Hann var nefnilega sendur á ritara áhættunefndar sem hafi viðurkennt fyrir dómi að hafa ákveðið eftirlitshlutverk innan nefndarinnar. „Ef að ásetningur hefði verið hjá Magnúsi til þess að sniðganga áhættunefnd er óhugsandi að hann hefði sent póstinn á Sverri Örn [ritara áhættunefndar og framkvæmdastjóra áhættustýringar].“ Sjálfur hafi Sverrir Örn viðurkennt að það hafi ekki verið til þess gert að fela málið.

Helgi áréttaði ítrekað að engin gögn séu í málinu sem bendi til aðkomu Magnúsar nema þessi eini tölvupóstur. Í honum sé ein lína af texta og á textanum megi ráða að Magnús hafi fengið samþykki, ekki að hann hafi samþykkt. Enda hafi hann ekki haft heimild til þess. „Ég er búinn að fara í gegnum allar skýrslur í tengslum við þetta mál og hvergi er minnst á skjólstæðing minn nema að frumkvæði rannsakenda. [...] Það kannast enginn við hans þátt í málinu.“

Hann sagði að ein ástæða væri fyrir því að Magnús sé sakborningur í málinu og það sé að ekki hafi fundist skráning um lánveitinguna í fundargerð áhættunefndar. Það eigi sér þær eðlilegu skýringu að samþykkt milli funda hafi hreinlega gleymst. Það hafi ekki verið óalgengt. Benti hann á að í upphaflegri kæru slitastjórnar hafi Magnús Arnar ekki verið tilgreindur sem sem mögulegur aðili málsins, enda hafi lánveitingin sjálf ekki verið talin athugaverð heldur það sem eftir fór.

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert