Hyggst hætta á Alþingi eftir ár

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar

„Þetta er mjög skemmtilegt starf en þú hefur ekki tíma til að gera neitt annað,“ segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, um þingmannsstarfið en hann hyggst hætta störfum á Alþingi eftir ár og hleypa varamanni sínum Ástu Helgadóttur að. Hann segir að enginn af þingmönnum flokksins ætli að gefa kost á sér í næstu þingkosningum sem fyrirhugaðar eru vorið 2017 og því sé æskilegt að einhver frambjóðandi hans verði með þingreynslu. Ásta hafi þá haft tvö ár til þess að setja sig inn í málin.

„Mínir styrkleikar nýtast yfirleitt best í upphafi verkefna. Við að koma hlutunum af stað, kortleggja ferlana og hvar völdin liggja og gera það aðgengilegt fyrir fólk. Gera sjálfan mig þannig óþarfan. Þá er ég búinn að nýtast best þessi tvö ár, Ásta kemur síðan inn og hefur tvö ár til þess að marka sín spor og öðlast reynslu,“ segir Jón Þór spurður hvers vegna hann ætli að hætta á miðju kjörtímabili en ekki til að mynda Helgi Hrafn Gunnarsson sem kom inn á þing fyrir Pírata fyrir ári ásamt Jóni.

„Helgi Hrafn er bara svo helvíti góður þingmaður,“ segir hann ennfremur. Sjálfur nýtist hann betur til hliðar þegar búið er að koma málum af stað. Helgi sé hins vegar miklu taktískari og snöggur að bregðast við. Sjálfur væri hann alveg til í að Helgi héldi áfram annað kjörtímabil. „Ég er ekkert hættur að reyna að fá hann til þess,“ segir hann og hlær. Hann viti til þess að vilji standi til þess á meðal Pírata að Helgi gefi aftur kost á sér.

Sjálfur gerir Jón Þór ráð fyrir að fara aftur að vinna við malbikun líkt og áður en hann var kjörinn á þing. Þar gefist gott ráðrúm til þess að hugsa. Hann verði að sama skapi í malbikunarvinnu í sumar. Hann segir ákvörðunina um að hann hætti á miðju kjörtímabili ekki nýja. Hann hafi áður rætt um það í fjölmiðlum. Til að mynda síðastliðið haust.

Spurður hvort hann sé nokkuð orðinn leiður á því að starfa á Alþingi segir hann svo alls ekki vera. Starfið sé skemmtilegt en mjög tímafrekt. Reynslan af þingmannsstarfinu eigi hins vegar eftir að nýtast honum vel. Hann viti núna hvernig kaupin gerist á eyrinni á Alþingi af eigin reynslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina