Kínverjar rannsaka norðurljósin

Norðurljós á himni.
Norðurljós á himni. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Fyrsta skóflustungan að kínversk-íslenskri rannsóknarstöð var tekin í kvöld á Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsýslu. 

Markmið starfseminnar er að auka skilning og þekkingu á samspili sólar og jarðar og því náttúruundri sem norðurljósin eru, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum Kárholl.is.

Þá á rekstur rannsóknarstöðvarinnar að hafa ýmiskonar jákvæð áhrif á umhverfi hennar, t.d. á skólahald, innlendar rannsóknir og ferðaþjónustu. Einnig á samstarfið sem stöðin hefur í för með sér að auka áhuga og opna fyrir frekara samstarf við aðrar erlendar rannsóknarstofnanir.

Samningur um vísindalegt samstarf

Rannsóknarmiðstöðin á Kárhóli er samvinnuverkefni Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (RANNÍS) og Heimskautastofnunnar Kína (Polar Research Institute of China - PRIC). Stofnanirnar hafa skrifað undir samning varðandi vísindalegt samstarf og er miðstöðin China-Iceland Joint Aurora Observatory (CIAO) sem rísa skal á Kárhóli liður í því.

Landið sem um ræðir er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Aurora Observatory (AO), sem mun annast uppbyggingu og rekstur aðstöðunnar á Kárhóli. Samkvæmt vefsíðu stofnunarinnar, Kárhóll.is, mun PRIC leigja landsvæðið af AO til að hrinda framkvæmdum í gang. Stofnaðilar AO eru Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs., ásamt Atvinnueflingu Þingeyjarsveitar ehf., Kjarna ehf. og Arctic Portal ehf.

Komu til Íslands 2012

Hermann Örn Ingólfsson, skrifstofustjóri Alþjóða- og öryggismálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, og Zhang Han, deildarstjóri evrópumálefna í kínverska utanríkisráðuneytinu, áttu heiðurinn að skóflustungunni sem var tekin kl. 18 í kvöld.

PRIC er opinber rannsóknarstofnun sem heyrir undir Hafmálastofnun Kína og er staðsett í Shanghai. Starfsemi PRIC felst m.a. í því að reka rannsóknarstöðvar á Svalbarða og á Suðurskautinu en einnig heyrir rekstur ísbrjótarins Xuelong, Snædrekans, undir stofnunina. Snædrekinn fer í reglulega rannsóknarleiðangra um norðurslóðir.

Fulltrúar frá PRIC komu í heimsókn til Íslands í apríl 2012 og hófust þá viðræður um téð vísindasamstarf.

Nánar á vef utanríkisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina