Óeðlileg afskipti Jóns Ásgeirs

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Sérálit Arngríms Ísberg héraðsdómara í Aurum-málinu stangast í öllum atriðum á við niðurstöðu héraðsdómarans Guðjóns St. Marteinssonar og Sverris Ólafssonar prófessors við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Arngrímur taldi meðal annars að afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar hefðu verið langt umfram það sem eðlilegt geti talist af manni sem engri stöðu gegndi hjá Glitni en fór með stóran eignarhlut í honum.

Eins og komið hefur fram voru þeir Lárus Welding, fv. bankastjóri Glitnis, Jón Ásgeir, einn aðaleigandi bankans, Magnús Arnar Arngrímsson, fv. framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, og Bjarni Jóhannesson, fv. viðskiptastjóri bankans, sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins í Aurum-málinu. Farið var fram á fjögurra til sex ára fangelsi yfir mönnunum.

Arngrímur Ísberg var ekki sammála meðdómurum sínum, skilaði séráliti og taldi að sakfella bæri Lárus, Magnús og Jón Ásgeir. Hann rakti skoðun sína í álitinu á þessa lund:

„Ákærðu, Lárusi og Magnúsi, eru gefin að sök umboðssvik í I. kafla ákæru. Þeir voru báðir hátt settir starfsmenn Glitnis banka hf. og bar í starfi sínu að gæta hagsmuna bankans í hvívetna. Í ákærunni er þeim gefið að sök að hafa ekki sinnt þeirri skyldu sinni. Eins og fram hefur komið stóðu þeir að því að lána FS38 ehf. 6 milljarða króna. Félag þetta var eignalaust og hafði engan rekstur með höndum. Það fékk lánið til að kaupa hlutabréf Fons hf. í Aurum Holdings Limited og voru þau hlutabréf til tryggingar láninu.

Um aðrar tryggingar var ekki að ræða nema tímabundna ábyrgð Fons hf. eins og rakið var. Aurum var erlent félag og ekki skráð á markaði. Það lágu því takmarkaðar upplýsingar fyrir um verðmæti þess. Af gögnum málsins, þar með töldum framburði fyrir dómi, má ráða að mat á virði hlutabréfanna í félaginu, sem voru veð fyrir láninu, hafi miðast við að félagið Damas keypti hlutabréfin.

Áform Damas ein og sér um kaupin voru þó ekki svo ákveðin að verjanlegt væri að byggja á þeim við lánveitinguna. Þá er og komið fram að Aurum hafi tapað á rekstri sínum árin fyrir 2008. Það er mitt mat að með því að lána FS38 ehf. nefnda fjárhæð með veði í bréfunum í Aurum hafi ákærðu valdið verulegri fjártjónshættu fyrir bankann. Þeir hafi því misnotað aðstöðu sína hjá bankanum og stefnt fjármunum hans í verulega hættu. Lánið var algerlega án fullnægjandi trygginga og þar af leiðandi var það veitt andstætt reglum bankans. Ég tel því að sakfella eigi ákærðu fyrir umboðssvik og dæma þá til fangelsisrefsingar.

Ákærða Jóni Ásgeiri er gefin að sök hlutdeild í umboðssvikunum fyrir að hafa með fortölum og þrýstingi hvatt til þess að lánið væri veitt. Þá er og komið fram að hluti af láninu rann til ákærða eins og lýst er í ákærunni. Í gögnum málsins kemur fram að ákærði hafði veruleg afskipti af þessari lánveitingu og hvatti til hennar. Afskipti hans voru langt um fram það sem eðlilegt getur talist af manni sem engri stöðu gegndi hjá bankanum en fór með stóran eignarhlut í honum. Ekki er hægt að líta á afskipti hans í öðru ljósi en því að honum var ætlaður hluti af láninu eins og rakið hefur verið. Ákærða hlaut þó að vera ljóst að veðið, sem stóð til tryggingar láninu, var á engan hátt fullnægjandi. Það er mitt mat að ákærði sé sekur um hlutdeild í umboðssvikunum og að dæma eigi hann til fangelsisrefsingar fyrir það.“

Ekkert sönnunargildi tölvupósta

Hvað þátt Jóns Ásgeirs varðar sagði meirihluti dómsins að undir aðalmeðferð málsins hafi mikill fjöldi tölvupósta verið borinn undir ákærðu og vitni. Í málflutningi ákæruvaldsins og sóknarræðu hafi svo komið skýrt fram að málatilbúnaður þess hafi að miklu leyti verið reistur á tölvupóstum sem ákæruvaldið túlkaði til rökstuðnings fyrir sakfellingu samkvæmt ákæru. 

„Þótt sönnunarmatið sé frjálst er sú leið ótæk að mati dómsins að byggja sönnun í málinu á túlkun á tölvupóstunum sem eru, a.m.k. að hluta, andstæðir framburði ákærðu og/eða vitna fyrir dómi. Önnur niðurstaða væri að mati dómsins andstæð grundvallarreglum um sönnun í sakamálum.“

Þá segir: „Ákæruvaldið sýnist einkum byggja sakargiftir á hendur ákærða Jóni Ásgeir á tölvupóstum og túlkun þeirra um að hann hafi í krafti áhrifa sinna í Glitni banka hf. haft þau áhrif á ákærða Lárus og Bjarna sem þar er lýst. Fjöldi vitna var spurður um þetta fyrir dómi. Ekkert þeirra styður þá fullyrðingu í ákærunni. Samkvæmt þessu, og gegn neitun ákærða, er ósannað að ákærði Jón Ásgeir hafi  haft þau áhrif á lánveitinguna í krafti áhrifa sinna innan Glitnis banka hf. sem lýst er í ákærunni.

Á sama hátt og rakið var að ofan er sönnun með tölvupóstum eins og ákæruvaldið byggir hér á, ótæk leið og andstæð grundvallarreglum um sönnun í sakamálum.“

Bankinn betur settur eftir lánið

Hvað félagið FS38 varðar, sem Arngrímur taldi eignarlaust, sagði meirihlutinn: „FS38 var ekki eignalaust við lánveitinguna þar sem félagið eignaðist þá veðandlagið, þ.e. hlutabréfin í Aurum. Við mat á því hvort ákærðu brutu reglur bankans með lánveitingunni verður að virða málið í heild og varðar þá mestu virði trygginganna sem veittar voru vegna lánveitingarinnar og staða bankans fyrir og eftir lánveitinguna.“

Þá er vísað til þess að ekki verði ráðið af ákærunni hvaða verð Aurum ákærðu hefðu átt að leggja til grundvallar þegar þeir mátu Aurum sem veðandlag. Í ákærunni segi aðeins að lánið hafi verið veitt án fullnægjandi trygginga. „Það er ekki í verkahring dómsins að taka afstöðu til þess hvert var verðmæti hlutabréfanna í Aurum sem sett voru sem trygging fyrir hluta lánsins sem um ræðir. Hins vegar er það mat dómsins að þær aðferðir sem notaðar voru við framagreind möt séu viðurkenndar og þekktar og hefur ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að verklag og aðferðir sem notaðar voru við gerð þessara gagna hafi verið rangar þannig að ekki hafi verið á þeim byggjandi við mat ákærðu á verðmæti hlutabréfanna og þar með veðandlagsins.

Var það því niðurstaða dómsins að sú forsenda ákærunnar að verðmæti Aurum hafi verið metið of hátt sé ósönnuð.

Dómurinn benti á að ákæruvaldið lagði ekki fram gögn um samanburð á stöðu Glitnis banka fyrir og eftir lánveitinguna til FS38 og að engin matsgerð liggi fyrir um það atriði. „Dómurinn telur umfjöllunina um þetta nauðsynlega til að unnt sé taka afstöðu til þess hvort ákærðu hafi með lánveitingunni gerst brotlegir við reglur bankans með því að meta ábyrgð Fons eins og þeir gerðu. Þá er samanburðurinn nauðsynlegur við mat á fjártjónshættu.“

Gerði dómurinn því eigin athugun á þessu atriði sem byggð var á „gögnum málsins og sérfræðiþekkingu innan dómsins.“ Niðurstaða dómsins var sú að að þrátt fyrir stórt lán hafi áhættustaða Glitnis banka verið skárri eftir 6 milljarða lántökuna en fyrir hana.

„Hér er um mikla einföldun að ræða en í fjarvist frekari upplýsinga, um mögulegar útkomur fyrir endurheimtur skulda og verðmæti hlutar FS38 í Aurum, er jöfn dreifing á mögulegar útkomur ein leið til að fá magnlega niðurstöðu. Miðað við þessar forsendur eru líkurnar á neikvæðri útkomu, eftir 6 milljarða lánið, töluvert lægri en áður en lánið er veitt, eða 45,71% á móti 80%.“

Því var það niðurstaða dómsins að ákærðu hefðu ekki misnotað aðstöðu sína þegar lánið var veitt.

Lárus Welding og Óttar Pálsson
Lárus Welding og Óttar Pálsson Þórður Arnar Þórðarson
Ólafur Þór Hauksson og teymi hans.
Ólafur Þór Hauksson og teymi hans. Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina