Steinþór áfrýjar dómnum

Frá héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Ómar

Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans, sem dæmdur var í níu mánaða fangelsi, þar af sex skilorðsbundna, fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, ætlar að áfrýja dómnum.

Steinþór var ásamt Sigurjóni Árnasyni, bankastjóra Landsbankans, ákærður fyrir markaðsmisnotkun við sölu á hlutum í bankanum til eignarhaldsfélaganna Imon og Azalea þann 3. Október 2008. Í báðum tilvikum var ekki búið að ganga frá fjármögnun kaupanna en viðskiptin voru engu að síður tilkynnt til Kauphallarinnar. Í ákæru kemur fram að Sigurjón hafi tekið ákvörðun um viðskiptin en Steinþór tilkynnt um þau. 

Gjörbreytir hlutverki miðlara í bönkum

Lárentsínus Kristjánsson, lögmaður Steinþórs, telur dóminn vera rangan þar sem skjólstæðingur hans hafi ekki verið í neinu löggæsluhlutverki fyrir markaðinn. „Þetta gjörbreytir hlutverki miðlara í bönkum ef dómurinn stendur,“ segir hann. 

Í málinu bar Steinþór því við að honum hefði ekki borið að afla sér vitneskju um fjármögnun vegna viðskiptanna áður en frá þeim var gengið enda sé það ekki hlutverk verðbréfamiðlara að ganga úr skugga um slíkt.

Í dómi héraðsdóms sagði hins vegar að Steinþóri hefði ekki getað dulist að viðskiptin og tilkynning þeirra til Kauphallarinnar væru til þess fallin að gefa eftirspurn hlutabréfa í Landsbankanum ranglega og misvísandi til kynna, auk þess sem í þeim hafi falist blekking og sýndarmennska.

Þá var við ákvörðun refsingar litið til þess að hann hafi verið forstöðumaður verðbréfamiðlunar Landsbankans og hefði sem slíkum borið ríkar skyldur gagnvart aðilum markaðarins, einstaklingum og lögaðilum, sem áttu í viðskiptum með hlutabréf.

Ekki í löggæsluhlutverki

„Dómurinn segir í raun og veru að minn skjólstæðingur hafi átt að finna á sér að skítalykt væri af málinu, sem þó var ekki til staðar, og þess vegna ekki átt að láta viðskiptin ganga í gegn líkt og hann væri í einhverju löggæsluhlutverki,“ segir Lárentsínus.

Hann segir viðskiptin hafa verið sambærileg fjölmörgum öðrum og honum hefði borið lagaskylda til þess að tilkynna þau án tafar til Kauphallarinnar líkt og hann í reynd gerði.

Frá héraðsdómi
Frá héraðsdómi Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert