Í fjallamennsku frá þriggja ára aldri

„Þetta var ekkert sérstaklega erfitt,“ segir Tómas Andri Ólafsson, tæplega ellefu ára gamall fjallagarpur sem gekk á Hvannadalshnjúk síðastliðinn laugardag. Tómas er hokinn af reynslu þegar kemur að fjallamennsku þrátt fyrir ungan aldur en Guðmundur Ögmundsson landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði telur allar líkur á því að hann sé yngsti göngumaðurinn til þess að klífa Hnjúkinn.

„Gangan tók rúmlega fjórtán tíma, en við tókum þrjú nestisstopp á leiðinni. Það var frekar mikill snjór á toppnum, en við vorum á snjóþrúgum þannig að það var ekkert mál,“ segir Tómas.

Fjallamennskan fjölskyldusport

Tómas byrjaði í fjallamennskunni ungur að árum, en áhugann á henni hefur hann frá fjölskyldunni. Tómas er sonur hjónanna Ólafs Más Björnssonar augnlæknis og Þóru Þórisdóttur kennara og eru þau hans helstu félagar í fjallgöngum.

„Ég byrjaði í fjallamennsku um þriggja ára aldur og hef alltaf verið í þessu með fjölskyldunni. Ég hef gengið þrisvar á Snæfell, hæsta fjall neðan jökla, og hef líka gengið á Kverkfjöll  sem eru rúmlega 1900 metrar á hæð.“

Tómas fór einnig í fimm daga gönguferð síðastliðið sumar en þá gekk hann ásamt tíu manna hópi um Fjörður á Norðurlandi.

„Við byrjuðum í Grenivík og gengum í kringum nokkur fjöll, m.a. Kaldbak. Þetta voru samtals um 85 kílómetrar en allir í hópnum voru fullorðnir nema ég.“

Stefnir á framtíð við myndatökur

Tómas er í Flataskóla í Garðabæ, en hann lauk þar 5. bekk í vor. Tómas segist þekkja fáa krakka sem stundi fjallamennsku af kappi, en hann gefur sér einnig tíma í önnur áhugamál.
„Ég æfi tennis og hef gert í nokkurn tíma. Ég þurfti einmitt að sleppa tennismóti til þess að ganga á Hvannadalshnjúk,“ segir Tómas.

Tómas stefnir á að ganga á Kirkjufell með fjölskyldunni í sumar, en segir aðrar göngur ekki hafa verið skipulagðar enn. Tómas hyggst ekki gera fjallamennsku að framtíðarstarfi þó áhuginn sé mikill, en myndavélin á hug hans og hjarta þegar kemur að framtíðaráætlunum.

„Mér finnst mjög gaman að taka myndir og langar helst að verða myndatökumaður,“ segir fjallagarpurinn Tómas.

Frétt mbl.is: Tíu ára gekk á Hvannadalshnjúk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert