Skeldýrarækt nánast bönnuð

Miklu nær væri að kalla lög um skeldýrarækt lög um bann við skeldýrarækt. Pétur Reimarsson, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, segir erfitt að sjá fyrir sér að lögin hvetji til fjárfestinga. Reglurnar sem uppfylla þurfi séu fleiri en komið verði á tölu.

Pétur fjallaði um málið á ársfundi Umhverfisstofnunar í síðasta mánuði. Hann sagði að enginn vafi væri á því að unnt væri að einfalda alla stjórnsýslu, leyfisveitingar og eftirlit með atvinnulífinu verulega frá því kerfi sem byggt hefur verið upp á undanförnum áratugum og ná sama árangri, en með mun minni tilkostnaði.

„Það blasir við að hátt flækjustig regluverksins dregur úr vexti fyrirtækja og heldur aftur af stofnun nýrra. Þess vegna er svo brýnt að minnka flækjustig og kostnað fyrirtækja við að fylgja reglum,“ sagði hann.

Ný lög um skeldýrarækt voru samþykkt á Alþingi sumarið 2011. Bent hefur verið á að síðan þá hafi nýliðun verið afar lítil  ef einhver  í greininni og fjárfestingar nánast engar.

Pétur segir lögin lýsa vandanum sem við er að etja ágætlega.

Skriffinnskan mikil

Í grunninn er skeldýrarækt einföld aðgerð. Hún felst í því að leggja kaðla í sjó og bíða eftir því að kræklingar festi sig þar á og vaxi upp í tiltekna stærð.

En að fá leyfi til að stunda kræklingarækt er ekki svo einfalt mál.

Til að byrja með þarf að fá starfsleyfi frá Umhverfisstofnun eða heilbrigðiseftirliti, en það fer eftir því hve umfangsmikil starfsemin verður. Þaðan fara umsóknirnar til umsagnar fjölmargra aðila.

Þá eru tilraunaleyfi veitt til að hámarki sex ára og um þau fjalla Fiskistofa, viðkomandi sveitarstjórn, Matvælastofnun, Landhelgisgæslan, byggingarfulltrúi, Hafrannsóknastofnun, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun, Orkustofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Umsóknin um tilraunaleyfi skal vera skrifleg og þar eiga jafnframt að koma fram upplýsingar um eignaraðild að skeldýraræktarstöð, fagþekkingu umsækjenda um tilraunaleyfi á viðkomandi sviði, stærð og umfang starfsemi og tegundir, starfsleyfi Umhverfisstofnunar, samningur við eiganda viðkomandi lands og loks yfirlýsing bygginga- eða skipulagsfulltrúa viðkomandi sveitarfélags.

Áður en gefin eru út ræktunarleyfi þarf leyfishafi, eða umsækjandinn, að láta framkvæma heilnæmiskönnun. Hún kostar nokkur hundruð þúsunda króna sem leyfishafinn þarf sjálfur að greiða. Ræktun og veiðar skeldýra eru síðan aðeins heimilar á ræktunarsvæðum sem Matvælastofnun hefur viðurkennt á grundvelli heilnæmiskannana.

Þarf að byrja allt upp á nýtt

Ef allt er í lagi getur kræklingaræktarbóndinn sótt um ræktunarleyfi en þá hefst allt ferlið upp á nýtt. Bóndinn þarf aftur að senda Matvælastofnun öll gögn og stofnunin þarf aftur að leita umsagnar frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Siglingastofnun Íslands, Umhverfisstofnun, viðkomandi sveitarfélagi og Landhelgisgæslunni.

Enn er ýmislegt ótalið, svo sem uppskeruheimild, sem er veitt á grundvelli greiningar á eiturþörungum í sjó og á þörungaeitri í skelfisk, sem og sjálft vinnsluleyfið.

Í lögunum segir jafnframt að hvenær sem er sé hægt að afturkalla tilraunaleyfi og ræktunarleyfi séu aðstæður – að mati Matvælastofnunar – óviðunandi vegna hættu á mengun eða annarra ófyrirsjáanlegra aðstæðna.

Borgar úr eigin vasa

Leyfishafinn þarf enn fremur að standa straum af öllum helstu kostnaðarþáttum við eftirlitið, svo sem launum starfsfólksins sem sinnir störfum vegna útgáfu leyfa og eftirlits, öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þar með talið vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar, og kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku, svo eitthvað sé nefnt.

Pétur bendir á að ekki sé verið að kalla eftir því að dregið verði úr efnislegum kröfum til fyrirtækjanna, heldur að beitt verði nútímalegum aðferðum við eftirlitið, dregið úr skörun og reynt að gæta ýtrustu hagkvæmni.

„Það eru atvinnurekendurnir sjálfir sem bera ábyrgð á sínum rekstri, framleiðslu sinni og þjónustu. Það eru þeir sem verða fyrir tjóni ef eitthvað bregður út af í rekstrinum og það er þeirra hagur að starfa í samræmi við lög og reglur. 

Það er hins vegar mikill misskilningur að opinbert eftirlit, sama hve umfangsmikið það er, geti komið í veg fyrir alla ágalla í búnaði, vöru eða þjónustu. Þar ráða fyrirtækin og viðskiptavinir þeirra mestu.“

Hann segir að íslenskt samfélag þurfi á því að halda að sem flestir vilji stofna fyrirtæki og að gata þeirra sé greið. Fólk þurfi að geta hafið rekstur og tekið áhættu með uppbyggingu nýrrar starfsemi. „Það eru hagsmunir allra. Þannig þróast samfélagið áfram, ný verðmæti verða til, störf skapast og lífskjörin batna.“  

mbl.is/Kristján
mbl.is/Kristján
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert