Allt að 40 mannslífum bjargað

Með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var umferð úr gagnstæðum áttum aðskilin til …
Með tvöföldun Reykjanesbrautarinnar var umferð úr gagnstæðum áttum aðskilin til að koma í veg fyrir frekari banaslys með framúrakstri og framanákeyrslum. mbl.is/Golli

Hjón og ungur faðir létu lífið í hörðum árekstri á Reykjanesbraut 30. nóvember árið 2000. Þetta hörmulega slys var kornið sem fyllti mælinn hjá Suðurnesjamönnum, sem beittu sér í kjölfarið af krafti fyrir vegaumbótum. Árangurinn verður ekki metinn til fjár, því í maí voru 10 ár liðin án þess að banaslys yrðu á tvöfaldri Reykjanesbraut. *

Fyrir fjölskyldur fólksins sem lést er það ákveðin huggun harmi gegn að slysið hafi orðið til þess að ráðist var í breikkun vegarins. „Stundum þurfa ömurleg slys að verða til þess að eitthvað fyrirbyggjandi gerist. Maður getur spurt sig af hverju og hvers vegna það vorum við, en það þýðir ekkert því við því eru engin svör,“ segir Jón Ingi Jónsson, sem missti foreldra sína á Reykjanesbraut.

Að meðaltali eitt dauðsfall á 99 daga fresti

Reykjanesbrautin, frá Hafnarfirði að Keflavík, var áður mesta slysagildra landsins og voru banaslys í umferðinni þar nær árlegur viðburður. Slysatíðnin jókst eftir því sem bílum fjölgaði og umferðarhraði varð meiri. Á árunum 2000 til 2003 létu 11 manns lífið á Reykjanesbraut, að meðaltali einn á 99 daga fresti.

Hefði ekkert verið gert og banaslys orðið áfram með sömu tíðni má áætla að hátt í 40 manns hefðu látist á síðustu árum, frá maí 2004 fram í maí 2014 og jafnvel fleiri, því umferðin hefur haldið áfram að aukast og var um 20% meiri á sólarhring árið 2013 en árið 2004.

„Ef þetta hefði haldið áfram og 40 manns dáið held ég að sé alveg víst að fáar fjölskyldur á Suðurnesjum hefðu sloppið við að missa einhvern nákominn,“ segir Steinþór Jónsson, sem fór á sínum tíma fyrir hópi áhugafólks um örugga Reykjanesbraut.

Fengu í magann þegar heyrðist í sjúkrabíl

„Þetta var orðið þannig að þegar sjúkrabílar fóru af stað fengu allir í Keflavík í magann og það var hringt á milli í bæjarfélaginu til að ganga úr skugga um að það væri enginn sem þú þekktir,“ segir Steinþór.

Áhugahópurinn um örugga Reykjanesbraut var grasrótarframtak nokkurra einstaklinga, sem hafði þó mikinn skriðþunga því að baki honum stóð samfélagið allt á Suðurnesjum. Baráttan fyrir tvöföldun vegarins hófst með borgarafundi í Stapa í Njarðvík í janúarbyrjun 2001, líklega einum þeim fjölmennasta innandyra á Íslandi. Þangað mættu um 1.000 manns, ásamt sveitarstjórnarmönnum, þingmönnum og ráðherrum.

„Það var mikilvægt að við hefðum þennan mikla þunga frá Stapafundinum með okkur. Þótt við höfum síðan verið sex manns sem tókum að okkur að fylgja þessu eftir var hver og einn einasti þeirra sem mættu á fundinn með okkur í anda og það var veganesti sem fylgdi okkur allt til enda. Þetta var líka löng barátta og margir sem höfðu gegnum árin lagt sín lóð á vogarskálarnar gegnum árin á undan okkur,“ segir Steinþór.

Með honum í framkvæmdastjórn hópsins voru Páll Ketilsson, Börkur Birgisson, Guðjón Vilhelmsson, Sturlaugur Ólafsson og Bjarni Einarsson.

Þrír bræður misstu báða foreldra sína í einu

Það sem ýtti þeim af stað var þrefalda banaslysið sem varð 30. nóvember árið áður.

Þannig vildi til að fólkið sem lést var allt búsett í Keflavík og því var djúpt skarð höggvið í lítið samfélag. Í öðrum bílnum var ungur maður, Benedikt Oddsson. Fjögurra ára gömul dóttir hans sat í aftursætinu og lifði slysið af. Í hinum bílnum voru hjónin Vilborg Jónsdóttir og Jón Rúnar Árnason. Þau voru 45 og 49 ára gömul og létu eftir sig þrjá syni.

Sá elsti þeirra, Jón Ingi Jónsson, segir slysið vera erfiðasta atburð í lífi þeirra bræðra og þeir muni aldrei komast yfir það að missa foreldra sína með þessum hætti. Sárust þyki þeim sú tilhugsun að börnin þeirra, sem eru orðin 11 talsins, hafi aldrei fengið kynnast ömmu sinni og afa.

Þegar fjölskyldunni var tilkynnt um slysið brunuðu þau til Reykjavíkur á Landspítalann, framhjá slysstaðnum á Reykjanesbraut. „Við sáum bílinn þeirra úti í móunum, og bílana báða, þarna hægra megin við veginn algjörlega í tætlum. Og ennþá í dag, jafnvel þótt vegurinn hafi verið tvöfaldaður, þá veit maður hvar staðurinn er. Það hverfur ekkert og í hvert sinn sem ég ek til Reykjavíkur sé ég bílana. Þetta er vont fyrst, svo versnar það, en svo lærirðu að lifa með því.“

Sættu sig ekki við árleg dauðsföll

Ætla má að það sama eigi við um aðra sem hafa misst nákomna á Reykjanesbraut. Jón Ingi segir það hins vegar huggun harmi gegn að banaslys foreldra hans hafi orðið til þess að hreyfa við fólki og stuðla að breytingum. „Stundum þurfa ömurleg slys að verða til þess að eitthvað fyrirbyggjandi gerist. Maður getur spurt sig af hverju og hvers vegna það vorum við, en það þýðir ekkert því við því eru engin svör,“ segir Jón Ingi.

„Þetta var dýrt gjald sem við greiddum en þannig voru bara spilin sem við fengum og það er ekki hægt annað en að reyna að sjá það jákvæða. Áður en yfir lauk var þetta gjald greitt fyrir ansi marga og það er ákveðin huggun. Okkur finnst gleðilegt að 40 mannslífum hafi verið bjargað og tugir fjölskyldna hafi sloppið við að ganga í gegnum það sem við þurftum að upplifa. Það eru ótrúlegar tölur.“

Jón Ingi segir að þeir bræður hafi fundið sterkt fyrir samhug Suðurnesjamanna við dauðsfall foreldra þeirra. Þeir þekktu líka Benedikt, sem var í hinum bílnum, eins og allir Keflvíkingar gerðu að sögn Jóns Inga. „Þetta tengist allt hérna, þar sem allir þekkja alla, og úr varð mikill samtakamáttur um að það sem hafði gerst ætti ekki að endurtaka sig. Af hverjum ættum við, þótt við byggjum á þessu svæði, að sætta okkur við að fólk myndi áfram láta lífið á þessari braut á hverju einasta ári?“

Jákvæð barátta lykillinn

Eins og gefur að skilja vakti slysið bæði sorg og reiði á Suðurnesjum. Rúmri viku síðar, 11. desember 2000, tóku um 100 manns sig til og lokuðu Reykjanesbrautinni í þrjár og hálfa klukkustund í mótmælaskyni, með því að leggja tugum bíla þvert yfir veginn. Í frétt Morgunblaðsins daginn eftir var vitnað í bréf sem dreift var til vegfarenda þar sem sagði að notendur „þjóðbrautar dauðans“ krefðust tvöföldunar strax.

Lögregla leit aðgerðirnar alvarlegum augum þótt ekki hafi komið til valdbeitingar í það sinn, en þegar leitað var til Steinþórs í kjölfarið um að beita sér í baráttunni ákvað hann að færa hana upp úr farvegi reiðinnar og reyna frekar að höfða til stjórnvalda með uppbyggilegum hætti.

Það einkenndi síðan starf áhugahópsins næstu árin, sem stóð m.a. fyrir jákvæðum uppákomum til áminningar um málstaðinn. Sem dæmi gáfu þeir kaffi og bílabænir á mannamótum, veittu viðurkenningar til ýmissa hópa og efndu til samvinnu við stjórnvöld „Það er engin spurning í mínum huga að þessi jákvæða framsetning á málinu skipti máli og ég held að það sé aðferð sem við ættum að tileinka okkur meira. Hundruð manna bloggher sem heimtaði framkvæmdir hefði ekki náð sama árangri,“ segir Steinþór. 

„Í upphafi voru svörin sem við fengum ekki til að gera okkur bjartsýn um að framkvæmdir færu af stað, en það var sannfæringin um að þetta væri mikilvægt verkefni sem allir gátu sameinast um og þrautseigjan sem hjálpaði okkur að klára það.“ Sjálfur er Steinþór þeirrar skoðunar að Reykjanesbrautin hafi, í ljósi sögunnar, sannað sig sem ein hagstæðasta og skilvirkasta framkvæmd í samgöngumálum á Íslandi.

Árangur þegar allir leggjast á eitt

Framanákeyrslur í og við höfuðborgarsvæðið voru ein algengasta tegund banaslysa í umferðinni fyrir rúmum áratug. Þrefalda banaslysið í nóvember 2000 varð með þeim hætti, en með aðgreiningu akstursstefna hefur dregið verulega úr slíkum slysum. Þar vegur nýja Reykjanesbrautin þyngst en það gerðist ekki af sjálfu sér.

Hugmyndir um tvöföldun vegarins höfðu komið til umræðu öðru hverju um margra ára skeið. Tillaga til þingsályktunar þess efnis var fyrst flutt á Alþingi árið 1988 og sambærilegar tillögur voru reglulega lagðar fram næstu árin en ekkert gerðist.

Um aldamót var tvöföldunin þó komin á vegaáætlun, en stefnt var að því að verkið yrði  að mestu unnið á árunum 2007-2010. Það má því án nokkurs efa þakka það baráttu Suðurnesjamanna að framkvæmdum var flýtt. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tók fyrstu skóflustunguna 11. janúar 2003, með áritaðri skóflu sem honum hafði verið afhent til verksins nákvæmlega tveimur árum fyrr, á borgarafundinum í Stapa.

„Ég held að þessi samstaða Suðurnesjamanna sýni best hvað hægt er að gera þegar allir leggjast á eitt og tala fyrir góðu málefni,“ segir Steinþór.

Tvöföldun opnuð tveimur mánuðum eftir banaslys

Síðast varð banaslys á Keflavíkurveginum hinn 19. maí 2004. Þá lést 52 ára karlmaður, Þórir Jónsson, þegar bíll hans fór út af veginum sunnan Kúagerðis. Í júlí sama ár var fyrsti áfangi tvöföldunar opnaður, samtals 12,1 km spotti frá bæjarmörkum Hafnarfjarðar um Vatnsleysuströnd og framhjá Vogavegi.

Árangurinn lét ekki á sér standa, því fyrsta árið á eftir varð ekkert banaslys á Reykjanesbraut. Síðustu 14 mánuðina áður en kaflinn var opnaður höfðu sjö látið lífið. Síðan eru liðin níu ár til viðbótar án þess að banaslys hafi orðið í umferðinni milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur.

Síðari áfanga tvöföldunarinnar lauk árið 2008.

Framkvæmdum lokið árið 2015

Reykjanesbrautin er þó enn ekki fullkláruð. Á sínum tíma var talið að tvöföldun vegarins dygði til og ekki væri þörf á að setja upp víravegrið milli veghlutanna. Annað hefur komið í ljós. mbl.is greindi frá því síðla árs 2012 að á þremur árum hefðu orðið átta slys á Reykjanesbraut með þeim hætti að bíl hefði verið ekið út af öðru megin og yfir gagnstæðan veghluta hinum megin. Einskær heppni virðist hafa ráðið því að aldrei varð banaslys.

Í kjölfarið ákvað Vegagerðin að setja upp víravegrið milli akbrautanna alla leið frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni miðar verkinu ágætlega. Í fyrra var sett upp víravegrið á 8 km kafla, af 24 km, og í sumar er áætlað að halda áfram og setja upp 9 km vegrið til viðbótar. Stefnt er að verklokum 2015. Þar með aukast líkurnar á því að Reykjanesbrautin verði áfram án banaslysa til framtíðar.

Fordæmi fyrir aðra hættulega vegkafla

Árangurinn sem náðst hefur á Reykjanesbraut hlýtur að teljast skýrt dæmi um hvernig bjarga má mannslífum með vegaumbótum. Íslensk stjórnvöld eru þátttakendur í s.k. „Áratug aðgerða“ á vegum Sameinuðu þjóðanna, með því meginmarkmiðið að fækkaalvarlegum slysum í umferðinni og helst útrýma þeim alveg, fram til ársins 2020. Nú þegar hefur orðið um helmingsfækkun banaslysa í umferðinni miðað við það sem var að jafnaði fyrir rúmum áratug, en betur má ef duga skal.

Auk Reykjanesbrautar hafa hinar helstu leiðirnar út frá höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur, verið þeir hlutar vegakerfisins þar sem hvað flestir hafa látið lífið í umferðarslysum enda bera þeir mesta umferðarþungann.

Vegkaflinn frá Þrengslavegi og fram hjá Litlu Kaffistofunni tók við af Reykjanesbrautinni sem sá versti á landinu þegar kemur að meiðslum og banaslysum. Í sumar hefjast á nýjan leik framkvæmdir til umbóta á Suðurlandsvegi og stendur til að fyrir 1. nóvember 2015 verði búið að breikka veginn alla leið yfir Hellisheiði og að Hveragerði. Áður en yfir lýkur verður vegurinn breikkaður alla leið að Selfossi, samkvæmt Samgönguáætlun 2011-2022.

Í Samgönguáætlun er einnig gert ráð fyrir breikkun Vesturlandsvegar, í 2+1 veg frá Þingvallavegi að Hvalfjarðarvegi. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ekki komin dagsetning á hvenær þær framkvæmdir hefjast.

*Rétt er að halda því til haga að Reykjanesbrautin nær inn í byggð beggja megin tvöföldunarinnar en hér er átt við gamla Keflavíkurveginn, frá Ytri-Njarðvík að Hafnarfirði. Tvö banaslys hafa orðið á Reykjanesbraut utan þess kafla. Í nóvember 2013 var ekið á gangandi konu við verslunarkjarnann á Fitjum í Reykjanesbæ og lést hún vegna áverkanna viku síðar. Fyrra slysið varð í desember 2008 þegar bíl var ekið út af Reykjanesbraut við kirkjugarðinn í Hafnarfirði, að því er talið er vegna hjartsláttartruflana ökumanns, sem lést.

Borgarafundurinn í Stapa markaði tímamót í baráttunni fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar. …
Borgarafundurinn í Stapa markaði tímamót í baráttunni fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar. Um 1.000 manns mættu. Ljósmynd/Víkurfréttir
Þrefalt banaslys á Reykjanesbraut 29. nóvember 2000 var kornið sem …
Þrefalt banaslys á Reykjanesbraut 29. nóvember 2000 var kornið sem fyllti mælin. Hin látnu voru Benedikt Oddsson, Vilborg Jónsdóttir og Jón Rúnar Árnason, öll búsett í Keflavík.
Baráttufólk fyrir öruggari Reykjanesbraut kom saman við Kúagerði í janúar …
Baráttufólk fyrir öruggari Reykjanesbraut kom saman við Kúagerði í janúar 2003 og tendruðu 49 friðarkerti, fyrir þá einstaklinga sem létust á Reykjanesbrautinni frá árinu 1964 til 30. nóvember 2000. mbl.is/Árni Sæberg
Á borgarafundinum í Stapa 11. janúar 2001 afhenti Steinþór Jónsson, …
Á borgarafundinum í Stapa 11. janúar 2001 afhenti Steinþór Jónsson, talsmaður áhugahóps um tvöföldun Reykjanesbrautar, Sturlu Böðvarssyni skóflu sem ráðherrann gæti notað til að taka fyrstu skóflustunguna að framkvæmdum við tvöföldun brautarinnar. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Mikill viðbúnaður á Reykjanesbraut eftir banaslys í febrúar árið 2000. …
Mikill viðbúnaður á Reykjanesbraut eftir banaslys í febrúar árið 2000. Því miður var þetta ekki sjaldgæf sjón á Reykjanesbraut á þeim tíma. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Minnisvarði um þá sem hafa látist við Kúagerði á Reykjanesi.
Minnisvarði um þá sem hafa látist við Kúagerði á Reykjanesi. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Merkjanleg fækkun banaslysa hefur orðið í umferðinni á undanförnum árum. …
Merkjanleg fækkun banaslysa hefur orðið í umferðinni á undanförnum árum. Munar þar ekki lítið um Reykjanesbrautina, sem tók árlegan toll en þar hefur nú ekki orðið banaslys í áratug. Svipuðum árangri mætti ná víðar. mbl.is/Árni Sæberg
Reykjanesbrautin er enn ekki fullgerð því unnið er að því …
Reykjanesbrautin er enn ekki fullgerð því unnið er að því að setja víravegrið milli veghlutanna alla leið frá Hafnarfirði til Keflavíkur. mbl.is/Golli
Þung umferð á 90 km hraða um veg þar sem …
Þung umferð á 90 km hraða um veg þar sem akstursáttir eru ekki aðskildar er hættuleg, eins og reynslan sýnir. Til stendur að breikka bæði Vesturlands- og Suðurlandsveg. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert