Flokksbræður karpa um Geir Haarde

Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór Sigurðsson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, er oft hnyttinn, en því er ekki að leyna að á stundum fara skotin langt yfir markið,“ segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri-grænna, á facebooksíðu sinni í dag. Þar vísar hann í bloggfærslu Björns Vals þar sem hann kallaði Geir Haarde ræfil.

„Það er sjálfsagt og eðlilegt í lýðræðislegu samfélagi að menn takist á um pólitísk markmið og leiðir en eins og í boltanum er meiri bragur að því að fara í boltann en ekki manninn. Sjálfum finnst mér þessi umfjöllun um Geir Haarde ómakleg,“ segir hann.

Þá segist hann vissulega vera á öndverðum pólitískum meiði við Geir Haarde. „En ég hygg að flestir sem þekkja til hans og kynnast honum viti, að þar fer vandaður og heiðarlegur einstaklingur sem tilefnislaust er að hnýta í þótt menn deili á pólítíska afstöðu hans,“ segir hann.

Þá rifjar hann upp Landsdómsmálið og segir mikilvægt að hafa í huga að lífið haldi áfram og að málatilbúnaðurinn hafi þar fengið endanlega niðurstöðu. „Almennt hlýtur að gilda að þeir sem gerast brotlegir við lög og hljóta dóm verða að geta átt leið inn í samfélagið á nýjan leik og verða boðnir velkomnir. Geir Haarde var ekki gerð refsing. Við svo búið verðum við sem samfélag að geta haldið áfram, sýnt hvert öðru virðingu og verið rausnarleg, þótt pólitískur ágreiningur verði eðilega áfram til staðar,“ segir Árni Þór.

Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bendir Árna hins vegar á að málið hafi ekki fengið endanlega niðurstöðu. „Mannréttindadómstóllinn mun kveða bráðlega upp dóm um hvort hér hafi verið um pólitísk sýndarréttarhöld að ræða eins og við mörg höldum fram,“ segir hann.

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert