Árbæingar söfnuðu fyrir nýrri stúku

„Þetta er náttúrulega gífurleg lyftistöng fyrir okkur og fyrir allt hverfið,“ segir Björn Gíslason formaður Fylkis um nýja stúku sem félagið tók í notkun fyrr í kvöld. Stúkan tekur 1900 manns í sæti.

Reykjavíkurborg styrkti verkefnið með framlagi uppá 94 milljónir króna og KSÍ með 17 milljóna krónu framlagi. Jafnframt stóð Fylkir fyrir söfnun meðal íbúa í Árbæ þar sem boðið var að kaupa hlut í stúkunni á 36 þúsund krónur og söfnuðust með því 9 milljónir króna. 

Mikill fjöldi  stuðningsmanna félagsins og velunnarar komu að byggingu stúkunnar, gáfu vinnu sína og studdu verkefnið.

„Við erum náttúrulega bara mjög þakklát Reykjavíkurborg og KSÍ fyrir hjálpina, og svo auðvitað öllum öðrum sem lögðu okkur lið. Það er alveg ómetanlegt,“ segir Björn en vígsluleikirnir stúkunar eru tveir. Sá fyrri stendur nú yfir þar sem meistaraflokkur kvenna tekur móti FH og sá seinni verður á morgun miðvikudaginn 11. júní en þar tekur meistaraflokkur karla á móti Breiðablik.

mbl.is

Bloggað um fréttina