Nýstofnað félag, Ægisíða ehf, hefur fest kaup á lóð og fasteignum N1 við Ægisíðu 102, þar sem um árabil hefur verið rekin bensínstöð og dekkjaverkstæði. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er Ægisíða ehf. í eigu einkafjárfesta.
N1 bókfærði í árshlutauppgjöri sínu fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs söluhagnað af Ægisíðu 102 að lágmarki 260 milljónir króna.
Samkvæmt upplýsingum blaðsins áforma forsvarsmenn Ægisíðu að reisa lágreista íbúðabyggð á lóðinni. Rætt hefur verið um blokk, sem að hámarki yrði tvær hæðir, en forsvarsmenn félagsins hafa enn ekki hafið viðræður um byggingaráform sín við skipulagsyfirvöld í Reykjavík, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.