Einn sérsveitarmaður hleypti af

Lögreglumenn að störfum við blokkina við Hraunbæ.
Lögreglumenn að störfum við blokkina við Hraunbæ. Rósa Braga

Rannsókn ríkissaksóknara hefur ekki sýnt fram á refsiverða háttsemi lögreglumanna við störf þegar umsát­urs­ástand skapaðist í Hraun­bæ í Árbæ­ að morgni 2. des­em­ber. Maður lést þá af völdum skotáverka sem hann hlaut í nára og á brjósthol í kjölfar þess að hann skiptist á skotum við sérsveitina.

Umsát­urs­ástand átti sér stað í Hraun­bæ þegar karl­maður skaut ít­rekað af hagla­byssu í íbúð sinni og síðan á lög­regl­una þegar hún mætti á staðinn. Hann féll fyr­ir skot­um lög­reglu þegar þess var freistað að fara inn í íbúðina og yf­ir­buga hann. Maður­inn átti við geðræn vanda­mál að stríða.

Á vefsvæði ríkissaksóknara má nálgast greinargerð vegna málsins. Í henni segir meðal annars að í íbúðinni hafi fundist fjögur tóm 9 mm skothylki og jafn margar 9 mm byssukúlur. Öllum skotunum var hleypt af úr sama vopninu. Það þýðir að aðeins einn sérsveitarmaður hleypti af vopni sínu, skammbyssu. Tvö skot hæfðu manninn, í brjósthol og nára.

Mikið magn af gasi notað

Einnig segir í greinargerðinni að lögregla hafi skotið miklu magni af CS gasi inn í íbúð mannsins. „Almennt veldur gasið verulegum óþægindum fyrir þann sem fyrir verður, en áhrifin eru m.a. sviði í augum, lungum og húð, svimi, ógleði og jafnvel uppköst. Við þetta leita flestir út úr því rými sem gas er sett inn í eftir skamman tíma. Gasaðgerðin skilaði hins vegar ekki þeim árangri og því ákvað lögregla að fara inn í íbúðina til þess að bjarga S úr aðstæðunum og veita honum fyrstu hjálp, líkt og verklagsreglur kveða á um, yfirbuga hann og handtaka.

Í þann mund sem sérsveitarmenn réðust inn í íbúðina skaut S þremur skotum að þeim og fór eitt skotið í hjálm sérsveitarmanns sem féll við. Sérsveitarmenn brugðust við árás S í neyðarvörn og skutu á hann með þeim afleiðingum að S varð óvígur. Var strax hafist handa við lífsbjargandi aðgerðir á vettvangi og var S fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum skömmu síðar.“

Þar sem um neyðarvörn var að ræða er vísað til 12. gr. alm. hegningarlaga. Þar segir

„Það verk er refsilaust sem menn vinna af neyðarvörn, að því leyti sem það hefur verið nauðsynlegt til þess að verjast eða afstýra ólögmætri árás, sem byrjuð er eða vofir yfir, enda hafi ekki verið beitt vörnum, sem séu augsýnilega hættulegri en árásin og tjón það, sem af henni mátti vænta, gaf ástæðu til.“

Ábendingar til RLS og ráðherra

Í lok greinargerðarinnar segir að málið hafi gefið ríkissaksóknara tilefni til að benda embætti ríkislögreglustjóra á nokkur atriði sem betur megi fara og varða varðveislu og afhendingu vopna sérsveitar þegar alvarleg atvik eins og það sem hér um ræði eiga sér stað. „Þær athugasemdir eru ekki þess eðlis að neinu breyti um niðurstöðu ríkissaksóknara í þessu máli.“

Þá er þess getið að ríkissaksóknari sendi innanríkisráðherra bréf þar sem ábendingu var komið á framfæri um að ráðuneytið taki til almennrar athugunar hvernig rétt sé að haga eftirliti með störfum lögreglu og málsmeðferð þegar borgararnir telja að lögregla hafi ekki fylgt réttum reglum í störfum sínum og samskiptum, og í þeim tilvikum þegar maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni vegna aðgerða eða aðferða lögreglu, óháð því hvort grunur sé uppi um refsivert brot.

Ekki sé kveðið á um þetta sérstaklega í lögum nema í þeim tilvikum þegar starfsmenn lögreglu eru kærðir eða grunaðir um refsivert brot við framkvæmd starfa sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert