„Allir eiga að fá að upplifa ævintýri“

Vinkonurnar Védís og Snædís
Vinkonurnar Védís og Snædís Ljósmynd/Á sama báti

„Hugmyndin er að þessi ferð verði eins konar rammi í kringum rödd Snædísar,“ segir Halla Ólafsdóttir en hún er ein aðstandenda verkefnisins „Á sama báti“. Í lok sumars mun Halla halda í ævintýraferð til Temagemi vatns í Kanada ásamt systur sinni Védísi og vinkonu hennar Snædísi Rán Hjartardóttur.

Hreyfihömluð og daufblind vegna hrörnunarsjúkdóms

Snædís er nítján ára gömul og er með hrörnunarsjúkdóminn BVVL, en vegna hans er hún bæði hreyfihömluð og daufblind. Markmið verkefnisins er að gefa Snædísi möguleika á að upplifa ævintýri sem reynst getur erfitt fyrir einstakling í hennar stöðu.

Védís var aðstoðarkona Snædísar um nokkurt skeið og urðu þær upp frá því góðar vinkonur. Hugmyndin að ferðinni til Kanada kom upp í samtali systranna Védísar og Höllu.

„Við ræddum hvort það væri ekki kominn tími til þess að Snædís hætti að vera áhorfandi ævintýra Védísar og kæmi þess í stað með í ævintýri.“

Kanada hentugur áfangastaður

Védís hefur starfað sem leiðsögumaður um langt skeið, bæði á Íslandi sem og erlendis. Á ferð um Kína kynntist hún konu að nafni Olivia, en sú hefur starfað sem leiðsögumaður á Temagemi svæðinu um langa hríð. Svæðið þótti henta vel til ferðarinnar og mun Olivia halda með í ævintýrið. Jafnframt segir Halla allar aðstæður á staðnum henta virkum skynfærum og upplifun Snædísar vel.

„Hún finnur fyrir hita og kulda vatnsins, getur baðað sig í því, borðað fisk úr því og gist í tjaldi. Aðstæður í Kanada eru fyrir margar sakir mun hentugri en hér, enda stöðugra veðurfar og auðvelt að skipuleggja svona ferð fram í tímann.“

Sérsmíðað sæti í bátinn

Því fylgir mikill undirbúningur að fara með Snædísi í ferðina, en smíði búnaðar hefur staðið yfir í nokkurn tíma. Sérstakan búnað þarf fyrir Snædísi í kanóinn, en hún mun sitja á milli Védísar og Oliviu í sæti sem hengt er á brúnar bátsins.

„Stoð í Hafnarfirði hafa undanfarið hjálpað okkur með því að smíða sætið, en það þarf að vera þannig að ef eitthvað kemur upp á og báturinn veltur þá er Snædís ekki föst. Björgunarvestið verður einnig fyrir það þunga manneskju að það lyftir bæði henni og sætinu.“

Snædís þarfnast aðstoðarfólks allan sólarhringinn. Hún lærði að tala áður en hún fékk hrörnunarsjúkdóminn, en nú þarf að tala við hana með táknmáli í hendurnar og getur hún síðan notað röddina til þess að svara á móti.

Halla útskrifaðist nýlega úr sjónrænni mannfræði og ætlar að búa til heimildarmynd um ferðalagið. Hún segir þetta vera verkefni af því tagi sem hana hafi dreymt um lengi.

„Þegar ég útskrifaðist langaði mig mikið að skapa verkefni sem leyfir röddum að heyrast sem almennt heyrast ekki vel. Augljósasta dæmið í mínu nágrenni var auðvitað Snædís.“ 

Allt byggt á styrkjum

Fjármögnun verkefnisins byggir á styrkjum, en pening er safnað í gegnum Karolina fund og sérstakan styrktarreikning sem auglýstur er á heimasíðu verkefnisins. Halla segir að nokkuð hafi borist af styrktarfé frá einstaklingum, en ferðin virðist hins vegar passa illa inn í styrktaráætlanir fyrirtækja.

„Stærsti kostnaðarliðurinn við að láta verkefnið ganga er að borga flugin út, en það veltur á styrkjum hversu mikið verður hægt að leggja í gerð myndarinnar. Á Karolina fund fer fram söfnun þar sem vonast er til að 5500 evrur safnist, en það fé mun fara í að gera drauminn að veruleika.“

Heimasíða Á sama báti

Facebook síða Á sama báti

Karolina fund vefsíða

Farið verður til Temagemi vatns í Kanada
Farið verður til Temagemi vatns í Kanada Ljósmynd/Á sama báti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert