Níu sæmdir íslensku fálkaorðunni

mbl.is/Brynjar Gauti

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdi níu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. 

Dagfinnur Stefánsson flugstjóri hlaut riddarakross fyrir brautryðjendastörf á vettvangi flug- og samgöngumála, Friðjón Björn Friðjónsson, fyrrverandi fjármálastjóri, hlaut riddarakross fyrir forystustörf á vettvangi íþrótta og Guðný Sverrisdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri, hlaut riddarakross fyrir störf í þágu heimabyggðar.

Enn fremur hlaut Hallfríður Ólafsdóttir tónlistarmaður riddarakross fyrir frumkvæði að tónlistaruppeldi æskufólks, Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur riddarakross fyrir ritstörf og rannsóknir á íslenskri náttúru og Hjörleifur Stefánsson arkitekt riddarakross fyrir framlag til húsaverndar og sögu íslenskrar byggingarlistar.

Þá hlaut Lilja Árnadóttir þjóðháttafræðingur riddarakross fyrir frumkvöðlastörf að varðveislu listmuna fyrri alda, Sigrún Guðjónsdóttir myndlistarmaður riddarakross fyrir framlag til íslenskrar myndlistar og Tómas Ragnar Einarsson tónlistarmaður riddarakross fyrir framlag til íslenskrar djasstónlistar og menningarlífs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert