Skoða virkara eftirlit með lögreglu

Rósa Braga

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skipað Ragnheiði Harðardóttur, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, til að leiða starfshóp sem mun taka til skoðunar hvernig komið verði á virkara eftirliti með starfsháttum lögreglu.

Ástæðu þess að ákveðið er að hefja þessa vinnu nú má meðal annars rekja til erinda sem borist hafa ráðuneytinu undanfarið þar sem fjallað er um þá stöðu sem komið getur upp þegar íbúar landsins telja á sér brotið vegna starfa lögreglu.  Nú síðast barst slíkt erindi frá ríkissaksóknara, en áður hafði umboðsmaður Alþingis sent ráðuneytinu erindi þar sem fram kemur svipuð skoðun um mikilvægi þess að slík vinna hefjist, að því er segir á vef innanríkisráðuneytisins.

Starfshópurinn mun leggja mat á núverandi kerfi og lagareglur og gera tillögur að breytu verklagi og lagabreytingum, eftir því sem við á. Þá fær starfshópurinn það hlutverk að gera tillögu að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi sem felst í móttöku og afgreiðslu kvartanna vegna starfa lögreglunnar, eftirfylgni vegna athugasemda ríkissaksóknara vegna starfa lögreglu og eftir atvikum frumkvæðiseftirlit með störfum lögreglu. Þá verður einnig horft til þess hvernig þessum málum er háttað í nágrannaríkjum okkar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir á vef ráðuneytisins:

„Markmiðið með þessu starfi er að treysta réttaröryggi enn frekar, efla öryggiskennd borgaranna og tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð við rannsókn mála. Ríkissaksóknari bendir réttilega á, í nýlegu erindi sínu til innanráðuneytisins, að til að bæði lögregla og almenningur fái hlutlausa og réttláta málsmeðferð getið verið heppilegra að óháður aðila fjalli um meðferð mála er varða rannsóknir á starfsháttum lögreglu. Allt þetta og fleira er viðkemur eftirliti með starfsháttum lögreglu almennt verður til skoðunar í umræddum starfshópi. Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari hefur víðtæka reynslu af málefnum ákæruvaldsins og réttarkerfisins. Ég er afar ánægð með að hún skyldi taka verkið að sér og vonast til að starfshópurinn nái að skila fyrstu tillögum eigi síðar en um næstu áramót.“

Leitað verður eftir skipunum í hópinn frá ýmsum aðilum, t.d. frá ríkissaksóknara, Sambandi íslenskra sveitafélaga, lögreglustjórafélaginu og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Starfshópurinn mun hafa til hliðsjónar bréf Umboðsmanns Alþingis til innanríkisráðuneytisins þann 30. des. sl. þar sem fjallað er um kvartanir vegna starfa lögreglu, sem og erindi ríkissaksóknara til ráðuneytisins þann 6. júní sl. þar sem ábendingu var komið á framfæri um að ráðuneytið taki til almennrar athugunar hvernig rétt sé að haga eftirliti með störfum lögreglu og málsmeðferð þegar borgararnir telja að lögregla hafi ekki fylgt réttum reglum í störfum sínum og samskiptum.

mbl.is

Bloggað um fréttina