Hnúfubakur, hverir og norðurslóðir

Viktoría, krónprinsessa Svíþjóðar, Daníel eiginmaður hennar og íslensku forsetahjónin skoðuðu sig um á Norðurlandi í dag, á síðari degi opinberrar heimsóknar sænsku gestanna til landsins.

Flogið var frá Reykjavík til Húsavíkurflugvallar í Aðaldal í morgun. Þaðan var haldið í
rúmlega tveggja tíma hvalaskoðun á skútu Norðursiglingar, Hildi. Hinir tignu gestir voru svo heppnir að hnúfbakur heilsaði upp á hópinn og vakti það mikla lukku.

Þegar komið var í land tók hópur Húsvíkinga á móti gestunum og húsvísk börn færðu þeim að gjöf hálsmen sem þau höfðu perlað, sænska fánann og þann íslenska. Eftir hádegisverð í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, á veitingastaðnum Gamla Bauk við höfnina á Húsavík hélt hópurinn í Mývatnssveit og skoðaði hverina í Námaskarði. Á leiðinni til Akureyrar var staldrað við um stund hjá Goðafossi sem gestirnir hrifust að eins og öðrum stöðum þar sem þeir komu.

Á Akureyri sátu Viktoría, Daníel og forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorritt Moussaieff, málþing um norðurslóðir í Háskólanum á Akureyri. Að því loknu var flogið til Reykjavíkur.

mbl.is