Í hópi fremstu vísindamanna heims

Thomson Reuters hefur gefið út árlegan lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims á sínum sviðum. Á listanum má meðal annars finna fjóra prófessora við Háskóla Íslands. Verða þeir einnig á lista Thomson Reuters The World's Most Influential Scientific Minds 2014.

Vísindamennirnir fjórir eru þeir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, Daníel F. Guðbjartsson og Unnur Þorsteinsdóttir, starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar og rannsóknarprófessorar við læknadeild Háskóla Íslands og Þorsteinn Loftsson, prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands. 

Sjö starfsmenn til viðbótar hjá Íslenskri erfðagreiningu eru á listanum, þau Augustine Kong, Guðmar Þorleifsson, G. Bragi Walters, Hreinn Stefánsson, Jeffrey R. Gulcher, Patrick Sulem og Valgerður Steinþórsdóttir.

Á listanum eru rúmlega 3000 vísindamenn sem að mati Thomson Reuters hafa mest áhrif á sínu vísindasviði í heiminum í dag. Listinn nær til allra greina vísinda og fræða, að hugvísindum undanskyldum. 

Aðferðin sem lögð er til grundvallar við gerð listans er fjöldi áhrifamikilla greina í vísindatímaritum (e. Highly Cited Papers) á tímabilinu 2002 til 2012. Thomson Reuters skiptir vísindaheiminum í 21 fræðasvið og tekið er tillit til fjölda vísindamanna á hverju sviði og meðalfjölda tilvitnana. Þessi aðferð er sérstaklega sniðin til finna þá vísindamenn sem öflugastir þykja á hverjum tíma og mest áhrif hafa á sínu fræðasviði.

ÍE umsvifamikil á sviði mannerfðafræði

Það er ljóst að Íslensk erfðagreining er framarlega þegar kemur að rannsóknum í mannerfðafræði, en stofnunin á 10 fulltrúa af 200 vísindamönnum á listanum á því sviði. Aðeins Bandaríkin og Bretland eiga fleiri fulltrúa á sviði mannerfðafræði en ÍE. Af Norðurlöndunum eru Finnar með sex nöfn á listanum, Danir fjögur, Svíþjóð eitt og Norðmenn ekkert. 

mbl.is
Loka