Prinsessan sá hval á Skjálfanda

Viktoría krónprinsessa Svíþjóðar og Daníel prins komu auga á hnúfubak í siglingu á Skjálfandaflóa í dag.

Hjónin komu til landsins í gær, en í dag lá leiðin á Norðurland þar sem Viktoría og Daníel sigldu með skútunni Hildi á Skjálfandaflóa. Heppnin var með þeim, en á siglingunni birtist fallegur hnúfubakur við hlið skútunnar. Siglt var í land á Húsavík þar sem hópur fólks tók á móti hinum tignu gestum. Börn á svæðinu færðu hjónunum gjöf og gladdi það prinsessuna mjög eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. 

Heimsóknin hófst á Bessastöðum í gærmorgun þar sem íslensku forsetahjónin buðu kóngafólkið velkomið og var síðan m.a. haldið í heilbrigðistæknifyrirtækið Össur. Með heimsókn krónprinsessunnar hafa allir ríkisarfar Norðurlandanna sótt Ísland heim, en formlegri heimsókn lýkur í kvöld. 

Frétt mbl.is: Prinsessan á Bessastöðum

Frétt mbl.is: „Gaman að hitta alvöru prinsessu“

mbl.is