Skora á landeigendur að rukka ekki

Innheimta náttúrugjalds við Hveri austan Námaskarðs. Hófst kl. 16.00 þann …
Innheimta náttúrugjalds við Hveri austan Námaskarðs. Hófst kl. 16.00 þann 18. júní 2014. Innheimta náttúrugjalds hafin í landi Reykjahlíðar. Birkir Fanndal Haraldsson

Ferðamálasamtök Íslands skora á ríkisstjórn og Alþingi að leita leiða til þess að stöðva gjaldtöku á einstaka ferðamannastöðum, einsog kemur fram í ályktun aðalfundar samtakanna sem haldinn var á mánudag, 16. júní.

Jafnframt er skorað á stjórnvöld að fjárfesta í frekari uppbyggingu innviða á helstu ferðamannastöðum sem og að auka fjármagn til framkvæmda, viðhalds og reksturs þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Einsog óinnrétt hótel

„Það má líkja þessu við hótel sem mundi rukka fullt verð en væri ekki búið að innrétta herbergin. Fólk er frekar tilbúið að borga ef það nýtur einhverrar þjónustu í staðinn,“ sagði Ásbjörn Björgvinsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, í samtali við mbl.is. „Það er víðast hvar ekki búið að byggja upp eitt né neitt á þessum stöðum.

Gott orðspor berst víða en illt útum allt. Ef það fer að spyrjast út að hér sé verið að rukka fyrir eitthvað sem ekki er búið að byggja upp vegna þess að það eigi að gera það á næstu árum mun það hafa skaðleg áhrif á orðspor okkar sem ferðamannaland,“ sagði Ásbjörn.

Þörf á annarri lausn

„Ég veit að ráðuneytið stendur um þessar mundir í þeirri vinnu að finna hvaða gjaldtökuleið skuli fara, hvort sem lausnin verður náttúrupassi eða eitthvað annað. Sú vinna er á fullu og verður vonandi tilbúin í haust og það er ekki nema eðlilegt að gefa henni tækifæri áður en farið er að rukka,“ sagði Ásbjörn. „Ég skora á landeigendur að endurskoða þessi gjöld og hætta þessu nú þegar.“

Ásbjörn benti á að mörg stóriðjufyrirtæki njóti margskonar ívilnunarsamninga. „Ferðaþjónustan er stærsta gjaldeyrisaflandi atvinnugrein landsins og ríkisstjórnin verður að horfa á fjárfestingu í henni sem fjárfestingu í innviðum ríkisins. Það sama hlýtur að mega gilda um ferðaþjónustuna og stóriðjuna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina