Birkir í fimm ára fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Birki Kristinsson, Elmar Svavarsson og Jóhannes Baldursson í fimm ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir aðild sína að BK-44-málinu svonefnda. Þá var Magnús Arnar Arngrímsson dæmdur í fjögurra ára fangelsi. 

Í mál­inu voru fjór­ir fyrr­ver­andi starfs­menn Glitn­is ákærðir fyr­ir umboðssvik, markaðsmis­notk­un og brot á lög­um um árs­reikn­inga. Menn­irn­ir eru Birk­ir Krist­ins­son, sem var starfsmaður einka­bankaþjón­ustu Glitn­is, Jó­hann­es Bald­urs­son, sem var fram­kvæmda­stjóri markaðsviðskipta, Elm­ar Svavars­son, sem var verðbréfamiðlari, og Magnús Arn­ar Arn­gríms­son, sem var fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs.

Ákær­an kom til vegna 3,8 millj­arða lán­veit­ingu bank­ans til fé­lags­ins BK-44 í nóv­em­ber 2007. Fé­lagið var í eigu Birk­is og voru Jó­hann­es, Magnús og Elm­ar ákærðir fyr­ir umboðssvik með því að veita fé­lag­inu lánið sem notað var til að kaupa bréf í Glitni. Birkir var svo ákærður fyrir hlutdeild í brotinu. BK-44 seldi hlut­ina á ár­inu 2008 þegar gert var upp við fé­lagið nam tap Glitn­is tveim­ur millj­örðum króna.

Ekkert skjalfest

Málið hverf­ist um kaup BK-44 á 150 millj­ón hlut­um í Glitni banka, lán­veit­ingu Glitn­is til BK-44 vegna kaup­anna, munn­leg­an samn­ing um skaðleysi og upp­gjör sem ekki aðeins tryggði BK-44 skaðleysi held­ur einnig hagnað, þrátt fyr­ir mikla lækk­un á virði bréf­anna í bank­an­um og vaxta­söfn­un láns­ins.

Sak­sókn­ari sagði ekk­ert hafa verið sett á blað um þenn­an samn­ing, eng­inn lána­stjóri hafi komið að mál­inu, eng­in lána­beiðni út­gef­in, ekki hafi verið rætt um viðskipt­in í áhættu­nefnd Glitn­is eða lána­nefnd­um, ekki gengið frá trygg­ing­um, gjald­færni BK-44 hafi ekki verið könnuð, ekki hafi verið farið eft­ir und­ir­skrift­ar­regl­um, samn­ing­ur hafi ekki verið skjalfest­ur og ekk­ert lá fyr­ir um sölu­rétt. Þrátt fyr­ir það nam hlut­ur­inn um einu pró­senti af hlut­um í bank­an­um og voru viðskipt­in til­kynnt til Kaup­hall­ar­inn­ar.

Neituðu allir sök

Mennirnir neituðu allir sök. Verjandi Jóhannesar sagði sam­tíma­gögn sýna að skjól­stæðing­ur hans átti enga aðild að málinu, verjandi Elmars sagði hann ekki hafa verið í stöðu til að taka ákvarðanir. Hann hafi aðeins tekið við fyrirmælum frá yfirmönnum sínum og framkvæmt í samræmi við þær. Verjandi Magnúasar sagði að þetta til­tekna lána­mál hefði ekki verið á hans borði og gögn beri þess ekki merki að Magnús hafi unnið að því. Hann hafi ein­göngu miðlað þeim upp­lýs­ing­um áleiðis að samþykkt hafi feng­ist á ákveðnum lána­mörk­um.

Verjandi Birkis sagði að hann hefði tekið þátt í þess­um viðskipt­um með hagnaðar­von að leiðarljósi. Hann hafi ekki átt frum­kvæði að viðskiptunum og sem starfsmaður Glitn­is hafi hann ekki komið að fram­kvæmd­inni að nokkru leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert