„Þetta er ekki réttur dómur“

Elmar Svavarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Elmar Svavarsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Þórður

„Við teljum að dómarinn sé í villu um staðreyndir,“ segir Karl Georg Sigurbjörnsson, verjandi Elmars Svavarssonar sem var dæmdur í 5 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í BK-44 málinu svo kallaða.

Elmar hafði starfað hjá Glitni banka í þrjú ár þegar ætluð brot áttu sér stað, sem verðbréfamiðlari markaðsviðskipta. Ákæra sérstaks saksóknara í málinu kom til vegna 3,8 milljarða króna lánveitingar bankans til einkahlutafélagsins BK-44 í nóvember 2007.

Karl Georg segir dóminn koma verulega á óvart. „Þetta er bara algjörlega út úr kortinu. Við erum búin að fara yfir dóminn og áfrýjum þessu alveg 100%.“ Hann segir svo virðast sem ekkert hafi verið horft á gögn, sem hann lagði fram, um það hvernig ferlið er í bönkunum og sýni að lánveitingin hafi ekki verið á ábyrgð Elmars.

Eins og starfsmaður á kassa

„[Elmar] er sýnilegasti maðurinn í öllum þessum viðskiptum, en hann er verðbréfamiðlari og hefur engar heimildir til að gera eitt eða neitt. Hann er bara eins og að vinna á kassa í búð. Hann er sakfelldur fyrir lánveitingu, sem hann hefur enga aðkomu að. Í fyrsta lagi þá getur hann náttúrulega ekki lánað neina peninga. Láni kemur frá fyrirtækjasviði bankans, sem þýðir að fyrirtækjasviðið á að monitora lánið. Það fer í gegnum gjaldeyrismiðlara, sem hann er ekki, hann er verðbréfamiðlari.“

Því sé af og frá að halda því fram að Elmar hafi tekið ákvarðanir um lánveitingar og það hvernig gengið yrði frá lánum. „Það er alveg litið fram hjá því að það er áhættustýring í bankanum, lánaeftirlit og ég veit ekki hvað og hvað. Það er ekki horft til neins af þessu og í raun og veru eru allar málsástæður okkar, allar útskýringar, í málinu sem heild er ekki horft til neins af því. Það er eins og ákæran hafi verið tekin hrá og henni snúið í dóm.“

Í dóminum er m.a. byggt á tveimur tölvupóstum, sem Karl Georg segir að varði hvorugur lán til BK-44 og verjendur telji sig hafa sannað það. „Þetta er ekki réttur dómur, ég held að það sé nokkuð ljóst,“ segir Karl Georg.

Auk Elmars hlutu 5 ára óskilorðsbundinn dóm þeir Birkir Kristinsson, starfsmaður einkabankaþjónustu Glitnis, og Jóhannes Baldursson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis. Þá var Magnús Arnar Arngrímsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, dæmdur í 4 ára fangelsi.

Samkvæmt heimildum mbl.is munu þeir allir áfrýja til Hæstaréttar.

mbl.is